Norður ný æfingastöð á Akureyri

Blaine McConnell, Björk Óðinsdóttir, Helga Sigrún Ómarsdóttir og Erlingur Óðinsson.
Blaine McConnell, Björk Óðinsdóttir, Helga Sigrún Ómarsdóttir og Erlingur Óðinsson.

Norður er ný æfingastöð á Akureyri sem staðsett er á 2. og 3. hæð á Tryggvabraut 22 þar sem Heilsuþjálfun var áður til húsa. Það eru þau Helga Sigrún Ómarsdóttir, Björk Óðinsdóttir, Erlingur Óðinsson og Blaine McConnell sem standa að opnun nýju stöðvarinnar.  

„Markmiðið með stöðinni er að skapa skemmtilegan anda og að fólki líði vel að koma og hreyfa sig,“ segir Helga Sigrún. „Það er allt að fara á fullt í þessari viku en vorum með prufuviku í síðustu viku sem gekk vonum framar. Það voru ótrúlega margir sem komu og prufuðu sem var mjög skemmtilegt. Við erum líka búin að vera í miklum framkvæmdum  á húsinu, bæði á sölunum sjálfum og búningsklefum og því gaman að leyfa fólk loksins að koma og sjá.“

Helga Sigrún segir að Norður bjóði uppá tvo mismunandi tíma á stöðinni, styrk og úthald en mikilvægt sé að geta boðið upp á hvoru tveggja. „Í úthaldstímunum leggjum við meira áherslu á léttari styrk og aðeins meiri keyrslu en í styrktartímunum er meiri áhersla á hægari tíma en meiri þyngdir. Það er mjög sniðugt að taka þessa tíma í bland. Svo getur fólk mætt til okkar og tekið æfingu sjálft ef það kýs það.

Við bjóðum einnig upp á tvö námskeið í sumar, mömmunámskeið fyrir mæður með lítil börn og Absolute Training þar sem lögð er áhersla á bæði líkamlega og andlega heilsu. Ekki má svo gleyma gulltímunum okkar en þeir tímar eru ætlaðir fólk 60 ára og eldri og eru tvisvar sinnum í viku,“ segir Helga Sigrún.

Hægt er að fylgjast með Norður á Facebook undir Norður Ak á Instagram undir nordurak.

 

 


Athugasemdir

Nýjast