Tvö af stærstu matvælaframleiðslufyrirtækjum á Norðurlandi, Norðlenska og Kjarnafæði hafa komist að samkomulagi um að hefja viðræður um samruna félaganna. Viðræður eru með fyrirvara um gerð áreiðanleikakannana, samþykki Samkeppniseftirlits og samþykki hluthafafundar Búsældar, eigenda Norðlenska.
Frá þessu er greint í Bændablaðinu í dag.
Eigendur félaganna tveggja, Kjarnafæðis og Norðlenska, meta stöðuna á þann veg að sameinað félag sé betur í stakk búið að veita viðskiptavinum sínum og birgjum, ekki síst bændum, gæðaþjónustu á góðu verði. Verði af fyrirhuguðum samruna verður til öflugt félag í íslenskri matvælaframleiðslu sem að baki sér hafi sterk og vel þekkt vörumerki.
Um 320 ársverk eru unnin hjá félögunum tveimur, m.a. á Akureyri, Svalbarðseyri, Húsavík og Höfn í Hornafirði, segir í frétt Bændablaðsins.
Um 190 starfsmenn eru hjá Norðlenska og um 130 hjá Kjarnafæði.