Norðlenska hefur keypt húseignir útgerðarfélagsins Vísis við Hafnarstétt 25-31 og Hafnarstétt 33 á Húsavík, alls um 5 þúsund fermetra. Í húsunum var vinnslusalur Vísis, frystigeymslur, skrifstofur, gistiheimili og geymslur. Norðlenska er með öfluga starfsemi á Húsavík. Okkur hefur vantað meira frystipláss og eignumst nú stóra og góða frysta við Hafnarstétt. Við sjáum ýmis önnur tækifæri með kaupum á húsnæðinu en ekkert verður þó ákveðið strax í þeim efnum, segir Sigmundur Einar Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska.
Fyrir einu og hálfu ári keypti Norðlenska hús við Suðurgarð 2 á Húsavík af Vísi en þar er starfsemi dótturfyrirtækis Norðlenska, Icelandic Byproducts.
Norðlenska matborðið ehf. er eitt stærsta og öflugasta framleiðslufyrirtæki landsins á sviði kjötvöru. Fyrirtækið er með starfsstöðvar á Akureyri, Húsavík, í Reykjavík og á Höfn í Hornafirði.