Nóg um að vera á Græna hattinum

GÓSS heldur tónleika á Græna hattinum.
GÓSS heldur tónleika á Græna hattinum.

Það verður nóg um að vera á Græna hattinum næstu daga. Stjórnin heldur tónleika um helgina, dagana 17. og 18. júlí. Sigga og Grétar fara yfir 30 árin og Stjórnin leikur öll sín vinsælustu lög. Stjórnina skipa þau Sigríður Beinteinsdóttir, Grétar Örvarsson, Eiður Arnarsson, Kristján Grétarsson og Sigfús Óttarsson. Húsið opnar kl. 19:30 bæði kvöldin og tónleikarnir hefjast kl. 21.00. Uppselt er bæði kvöldin.

Ásgeir Trausti heldur svo tónleika á sunnudagskvöldinu 19. júlí kl. 21.00 og er einnig uppselt á þá tónleika.

Hljómsveitin GÓSS með þeim Sigurði Guðmundssyni, Sigríði Thorlacius og Guðmundi Óskari verður á flakki víða um land í júlí til að fagna sumrinu og heldur tónleika á Græna hattinum, þriðjudaginn 21. júlí. Hljómsveitin GÓSS hefur slegið í gegn með tónleikum sínum um land allt, en einnig vakti fyrsta breiðskífa sveitarinnar, Góssentíð, mikla athygli og var m.a. tilnefnd sem plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Nýlega kom síðan út ábreiða af laginu Sólarsamba.„Á tónleikum GÓSS verður boðið upp á létt og skemmtilegt prógram þar sem aðalmarkmiðið er að skapa hugljúfa kvöldstund fyrir tónleikagesti,“ segir um tónleikana sem hefjast kl. 21.00.

Hljómsveitin Vök heldur tónleika miðvikudagskvöldið 22. júlí. Sveitin sendi frá sér sína aðra breiðskífu, „In The Dark“ í fyrra og í kjölfarið fékk hljómsveitin þrenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum. Vök hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi frá því að þau unnu Músíktilraunir 2013. Síðan þá hefur sveitin gefið út tvær stuttskífur (EP) og breiðskífuna, „Figure“ sem var einnig valin plata ársins 2017 á Íslensku tónlistarverðlaununum.


Athugasemdir

Nýjast