12. mars, 2007 - 13:44
Fréttir
Þórir V. Þórisson yfirlæknir Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri, telur að að ekki sé skortur á augnlæknum á Akureyri. Hér séu starfandi tveir augnlæknar, sem hafi þótt vera nóg til þessa. Engu að síður mun vera nokkuð um að Akureyringar sæki sér augnlækningaþjónustu til höfuðborgarinnar. Þórir sagðist kannast við það að eitthvað væri um að Akureyringar sæktu augnlæknaþjónustu suður en vissi ekki hvers vegna það væri. „Á Fjórðungssjúkrahúsinu er stöðuhlutfall augnlæknis og úti í bæ er hverjum sem er heimilt að opna augnlækningastofu," sagði Þórir. Ragnar Sigurðsson er annar tveggja augnlækna á Akureyri en þessir tveir starfa saman á lækningastofu í Kaupangi. „Það er alveg nóg að hafa tvo augnlækna í bænum og hefur alltaf verið," sagði Ragnar þegar við ræddum við hann. Hvort hann vissi ástæður þess að fólk væri að sækja þessa þjónustu út fyrir bæinn sagði hann: „Sumir kjósa að fara suður og hafa fyrir því ýmsar ástæður. Bið eftir tímum hjá okkur er mislöng, um þessar mundir er ekki nema nokkurra daga bið en á haustin þegar mest er að gera getur sú bið numið einni til tveimur vikum," sagði Ragnar.