Stjórn Norðurrorku hf. samþykkti á fundi sínum í gær, að loknum aðalfundi félagsins, að byrja á því að skoða aftur niðurstöðu ráðningarferlisins frá því í sumar, þegar auglýst var eftir nýjum forstjóra. Eins og fram hefur komið er Ágúst Torfi Hauksson á leið úr stól forstjóra Norðurorku í stól forstjóra Jarðborana hf. en hann tók við starfi forstjóra Norðurorku um miðjan september sl. Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður stjórnar Norðurorku segir að stjórnin muni hittast á ný á mánudag og að þá muni hlutirnir skýrast betur. Alls voru 36 umsækjendur um stöðu forstjóra þegar Ágúst Torfi var ráðinn og segir Geir Kristinn að það hafi fleiri en einn komið til greina á þeim tíma. Geir Kristinn segir að samstarf stjórnar og Ágústs Torfa forstjóra hafi verið mjög gott og aldrei borið skugga á. Hann hafi hins vegar fengið tækifæri hjá Jarðborunum sem hann hafi ekki getað hafnað.
Aðalfundur Norðurorku var haldinn í gær og var stjórn félagsins endurkjörin. Auk Geirs Kristins stjónarformanns, eru í stjórn þau; Ásdís Elva Rögnvaldsdóttir, Edward Hákon Huijbens, Halla Björk Reynisdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson. Hagnaður varð af rekstri samstæðu Norðurorku hf. á árinu 2011 nam 473 milljónum króna eftir skatta. Árið 2010 var hagnaður Norðurorku rúmar 1.250 milljónir króna. Handbært fé í árslok 2011 var tæpar 650 milljónir króna og hækkaði um 300 milljónir króna frá árinu á undan. Bókfært eigið fé samstæðunnar í árslok nam tæpum 5,2 milljörðum króna samkvæmt efnahagsreikningi. Norðurorka er orkuveitufyrirtæki sem selur heitt vatn, rafmagn og kalt vatn á Akureyri og nágrenni.
Stjórn félagsins lagði til að greiddur yrði 15% arður til hluthafa á árinu 2012 og var það samþykkt. Hlutafé félagsins í árslok nam tæpum 847 milljónum króna og skiptist á sex hluthafa. Akureyrarbær á yfir 98% eignarhlut í félaginu. Markmið Norðurorku er að halda áfram niðurgreiðslu skulda og er stefnt að því að greiða þær niður um að minnsta kosti 400 milljónir króna á þessu ári. Veltufjárstaða fyrirtækisins er sterk og tekist hefur að vinna fyrirtækið í gegnum þau áföll sem skullu á í kjölfar bankahrunsins. Í ársskýrslunni kemur einnig fram að fyrstu árin í rekstri hitaveitunnar hafði verið erfið. Verðið sem Akureyringar og nærsveitamenn þurftu að greiða fyrir heita vatnið var með allra hæsta móti á landinu á þeim tíma. Kostnaður við jarðhitaleit og boranir var mikill auk þess sem veitan var ný og dreifikerfið byggðist hratt upp. Ljóst er að sú stefna sem tekin var í upphafi og þá sér í lagi að haga gjaldtöku á ábyrgan hátt, hefur skilað sér mjög vel til viðskiptavinanna. Nú er svo komið í fyrsta sinn frá stofnun hitaveitunnar að meðalnotkun hjá Norðurorku er á sambærilegu eða lægra verð en hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Það er stefna Norðurorku að veita sem besta þjónustu á sem hagkvæmustu verði og bera verðskrárbreytingar Norðurorku um síðastliðin áramót því vitni. Á meðan verðlag í landinu, og þar með ýmis rekstrarkostnaður í veiturekstri, hefur hækkað umtalsvert hefur hækkunum á verðskrá verið stillt verulega í hóf og einungis Reykjaveita og vatnsveita hækkað í samræmi við vísitölu neysluverðs eða 5,28% en aðrar veitur mun minna.
Félagið átti eitt dótturfélag í árslok, Fallorku ehf. sem er hluti af samstæðureikningi Norðurorku. Bókfært verð eignarhlutans hjá móðurfélaginu nam rúmum 30 milljónum króna í árslok. Þann 20. desember 2006 urðu flóð í Djúpadalsá vegna náttúruhamfara. Jarðvegsstífla við Djúpadalsvirkjun 2 brast og flóðvatn olli tjóni á báðum virkjunum Fallorku, auk tjóns á samgöngumannvirkjum og eignum þriðja aðila. Tjón á virkjunum Fallorku er metið á um 128 milljónir króna og er tjón á stíflu þá ekki meðtalið. Tekið hefur verið tillit til áfallins tjónakostnaðar í reikningsskilum félagsins og virkjanir félagsins eru komnar í fullan rekstur.
Þann 16. janúar 2010 úrskurðaði Úrskurðarnefnd viðlagatrygginga að sú niðurstaða stjórnar Viðlagatryggingar að hafna bótaskyldu vegna tjóns í náttúruhamförum í Djúpadal í desember 2006, skyldi felld úr gildi. Ekki er þó kveðið á um greiðsluskyldu Viðlagatryggingar í úrskurðinum. Meginforsendur fyrir úrskurði Úrskurðarnefndarinnar voru að flóðið hefði stafað af náttúruhamförum, sbr. skýrslu Náttúrufræðistofnunar, að eignirnar hefðu verið viðlagatryggðar og að Fallorka hefði hvorki með ásetningi né stórfelldu gáleysi fyrirgert rétti sínum til bóta.
Með bréfi þann 4. febrúar 2010 tilkynnti stjórn Viðlagatryggingar að hún hafi tekið þá ákvörðun að tjónbætur verði ekki greiddar að svo stöddu. Fallorka ritaði Úrskurðarnefndinni bréf þann 3. nóvember 2010 og krafðist þess að nefndin skýrði nánar úrskurð sinn frá 16. janúar 2010 eða úrskurðaði um bótaskyldu. Stjórn Viðlagatryggingar hafnaði greiðsluskyldu 3. nóvember 2011. Fallorka ehf. kærði þá ákvörðun til Úrskurðarnefndar með bréfi þann 2. desember sl. Óljóst er hvenær og hvernig málinu lýkur.
Í árslok 2009 seldi Norðurorka hf. eignarhlut sinn í Þeistareykjum ehf. Sá hluti söluverðs sem greiðist á árunum 2019 til 2034 nemur 673,3 milljónum króna og er færður meðal langtímakrafna. Viðbótargreiðsla vegna sölu eignarhlutans er háð því að orkuvinnsla hefjist innan tuttugu og fimm ára frá undirritun kaupsamnings og er hún ekki færð í ársreikningi vegna óvissu um greiðslu hennar, segir í ársskýrslu Norðurorku.