Niður með verðtryggðu lánin!

Kristján Þór Júlíusson skrifar

Í TÍUND, fréttabréfi ríkisskattstjóra var fyrir nokkru fjallað um tekjur þeirra er áttu innstæður í bönkum í október 2008. Af þeirri umfjöllum er augljóst að afkoma fjármagnseigenda var ,,gulltryggð.“ Eign þeirra var vernduð, án skilyrða og fortakslaust, af stjórnvöldum með yfirlýsingu um tryggingu allra innstæðna. Að auki  fengu fjármagnseigendur líka óskiptan „hagnaðinn“ af verðbólgu og vaxtaskoti í kjölfar efnahagshrunsins. Á meðan hefur verðtryggingin fengið að herja óáreitt á skuldsett heimili landsins. Verðbólga frá ársbyrjun 2008 er nálega 40 prósent og lánþegar þessa lands hafa mátt horfa á lánin sín hækka um þá upphæð auk hárra vaxta. Þeir fjármunir hafa runnið í hirslur fjármálafyrirtækja og fjárfesta.  Með nokkrum sanni má segja að þetta fyrirkomulag hafi hneppt stóran hluta þjóðarinnar á besta aldursskeiði, 25-40 ára, í skuldaþrælkun og stuðlað að stórfelldum flutningi á eignum frá einum þjóðfélagshópi til annars.

Almenningi ofbýður þetta óréttlæti. Skuldsett heimili, sem vilja standa í skilum, krefjast  réttlætis og sanngirni í sinn garð þegar þungar fjárhagslegar byrðar leggjast á þjóðfélagið vegna efnahagshrunsins.  Að mínu mati eru bæði sterk sanngirnis- og réttlætisrök, sem mæla með því að tekist verði á við þann hluta forsendubrestsins sem löggjafinn getur tekið beint á. Leitað verði leiða til að deila áfallinu jafnt á milli lántakenda og lánveitenda varðandi verðtryggð lán en gengisbundin lán verði látin lúta að fullnustu dóms hæstaréttar.

Rangar áherslur

Það er athyglivert að stjórnvöld virðast oftast einblína á kostnað lánastofnana en minna fer fyrir umræðunni um kostnað  lánþega. Því síður virðast stjórnvöld vilja horfast í augu við vaxandi kostnað þjóðarbúsins vegna vaxandi vanskila og versnandi lífsskilyrða þeirra tugþúsunda Íslendinga sem heyja að því er virðist vonlausa baráttu við það að verja stærstu fjárfestingu lífs síns: Þakið yfir höfuðið. 

Skýrsla sem forsætisráðuneytið lét Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vinna um kostnað við leiðréttingu stökkbreyttra skulda heimilanna hefur varpað skýru ljósi á þessa stöðu. En Forsætisráðherra segir að samkvæmt úttekt Hagfræðistofnunar muni það kosta 200 milljarða að leiðrétta höfuðstóla verðtryggðra lána þ.e. færa þá niður til þeirrar vísitölu sem var við bankahrunið 1. október 2008. Þetta er svipuð fjárhæð og verðtryggingin hefur kostað lántakendur frá bankahruni. Staðan heldur hins vegar áfram að versna og brýnt er að grípa til aðgerða til að forða frekara tjóni.

Færum höfuðstól verð- og gengistryggðra lána niður!

Fyrir rúmum tveimur mánuðum hélt Sjálfstæðisflokkurinn landsfund sinn. Á honum var m.a. samþykkt tímamótaályktun um fjármál heimilanna, sem gerði það m.a. að stefnu Sjálfstæðisflokksins að færa höfuðstóll verð- og gengistryggðra lána niður.

Það tel ég unnt að gera með eftirfarandi hætti: 

1. Allar verðtryggðar peningaeignir - innistæður, skuldabréf og lánasamningar verða færðar niður til samræmis við stöðu vísitölu neysluverðs til verðtryggingar í janúar 2008 ásamt sambærilegri lækkun á vöxtum óverðtryggðra peningaeigna.

a. Reikna skal frá þeim tíma að hámarki 4% verðbótaþátt til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

b. Reikna skal dráttarvexti á afborganir í vanskilum samkvæmt leiðréttingu.

c. Umframgreiðslur frá 1. janúar 2008 til dags, miðað við hámark verðbótaþáttar (sbr. lið a) skulu dregnar frá höfuðstól lánsins á greiðsludegi.

d. Komist lántaki og lánveitandi að samkomulagi um nýtt óverðtryggt lán samhliða vísitöluleiðréttingum verði stimpilgjöld felld niður vegna nýs láns.

e. Innleitt verði tímabundið bann við sérstökum „uppgreiðslugjöldum“. 

2. Gengistryggð lán skulu færð til upphaflegrar stöðu m.v. dóm Hæstaréttar, 16. september 2010 um ólögmæti gengistengingar.

a. Lán skal bera samningsvexti frá lántökudegi til 16. september 2010. Frá þeim degi skulu lán bera vexti í samræmi við fyrrgreindan dóm Hæstaréttar (lægstu vextir SÍ).

b. Reikna skal dráttarvexti á afborganir í vanskilum samkvæmt leiðréttingu.

c. Hafi átt sér stað umframgreiðslur af láni skal draga þær frá höfuðstól á greiðsludegi.

d. Samhliða leiðréttingum verði öllum lánveitendum gert að bjóða upp á endurfjármögnun lána. Sú endurfjármögnun skal vera án stimpil- og uppgreiðslugjalda. 

3. Hafi leiðrétting farið fram á láni skal hún taka mið af stöðu þann 01.01 ´08 á verðtryggðum lánum, en lántökudegi vegna gengistryggðra lána. 

4. Ráðist verði í eftirfarandi aðgerðir fyrir þá sem verst eru settir, þ.e. þá er ekki rúmast innan tillagna hér að ofan.

a. Fólki, sem þess óskar, verði gert mögulegt að „skila lyklum“ að eign sinni til lánastofnunnar.

b. Fólki verði gert kleift að óska gjaldþrots með liðsinni Umboðsmanns skuldara.

Brýnt að bregðast við

Það verður að bregðast við því staðreyndirnar blasa við. Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til duga ekki til lausnar á þeim meginvanda sem við blasir. Það fjölgar á vanskilaskrá dag frá degi. Almenn skuldsetning heimila og smærri fyrirtækja í þjóðfélaginu veldur því að þrælunum í skuldafangelsinu fjölgar ört. Í lok ársins 2010 voru 40% heimila landsins með neikvæða eignastöðu. Það samsvarar því að 60.000 íslenskar fjölskyldur skulda meira en þær eiga. Meðan ekki er tafarlaust gripið til róttækra aðgerða blasir við að eignastaðan hríðversnar, kaupmáttur dregst saman og tekjur heimilanna fara að byggja í auknum mæli á bótagreiðslum frá hinu opinbera. Ótækt er að una því. Það er brýnt að bregðast við.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

 

Nýjast