Í síðasta tölublaði Vikudags var ítarlega fjallað um fíkniefnaheiminn á Akureyri og spurningum velt upp hvort ef til vill væri að færast meiri harka í þennan annars hulda heim.
Meðal annars var rætt við Heimi Eggerz Jóhannsson sem hefur um árabil unnið fyrir foreldrasamtökin Samtaka. Hann sagði löngu tímabært að ræða um fíkniefnaneyslu ungmenna á Akureyri á opinskáan hátt og kallaði eftir vitundarvakningu. Hann lét einnig í veðri vaka að Rósenborg, sem kemur að forvarnarmálum á Akureyri ásamt lögreglunni forðuðust að ræða fíkiefnaneyslu ungmenna af ótta við að ala á hræðsluáróðri. Að þessu sinni er kastljósinu í auknum mæli beint að því forvarnastarfi sem verið er að vinna á svæðinu.
Alfa Aradóttir, deildarstjóri forvarna- og frístundadeildar hjá Akureyrarbæ segir í samtali við Vikudag það sé ekkert hæft í því að það sé verið að þagga þessa umræðu niður. „Þær upplýsingar sem við erum að vinna útfrá koma frá Rannsókn og greiningu og frá Landlækni og annað í þeim dúr. Það eru bara opinber gögn,“ segir hún og að sjálfsögðu getum við ekki rætt einstaka mál. En fyrir utan þau rannsóknargögn sem stuðst er við í forvarnastarfinu er mikið samstarf milli aðila sem koma að slíkri vinnu. Meðal annars er stórt forvarnateymi sem kemur frá öllum skólastigum, félagsþjónustu, heilsugæslu lögreglu og fleiri aðilum, sá hópur fundar reglulega og tekur stöðuna. Þá tekur hún fram að hún starfi við æskulýðsmál og geti því aðeins talað fyrir þann aldurshóp og bendir á að í vikunni var fundur með fólki frá landlæknisembættinu þar sem kom fram að „það er ekkert sem segir okkur að í þessum aldurshópum sé einhver aukning á fíkniefnaneyslu.“
Alfa segir jafnframt að Akureyri skeri sig ekkert úr frá öðrum stærri samfélögum hvað varðar stærð eða umfang fíkniefnaheimsins. „Þó held ég að þessi heimur sé nokkuð ósýnilegur þeim sem ekki eru þar. Þá á ég við að hinn almenni bæjarbúi getur gengið sínar götur án þess að verða nokkuð áþreifanlega var við þetta. Hins vegar fá þær fjölskyldur sem eru að glíma við þennan vanda, þær fá ískaldan veruleikann í andlitið. En svo virðist sem áfengis og vímuefnaneysla fullorðinna sé meiri en áður. Maður hefði varla trúað því hér fyrir einhverjum árum að fíkniefnaframleiðsla yrði umtalsverð, hér á landi. Sú virðist þó vera raunin, því miður. Vonandi geta löggæsluyfirvöld gert meira í því að fylgjast með slíkum málum og sett aukinn kraft í að koma upp um slík mál,“ útskýrir hún og vísar þarna til þess að tvisvar á stuttum tíma hefur komist upp um stórfellda kannabisframleiðslu hér í Eyjafirði eins og komið hefur fram í fréttum.
„Við sem erum að starfa að æskulýðs- og forvarnamálum hjá sveitarfélaginu lítum á forvarnir í víðum skilningi. Þannig skoðum við áhættuhegðun ýmiskonar og reynum að vinna með hana.
Rannsóknamiðstöðin Rannsóknir & greining (R&G) sérhæfir sig í rannsóknum á högum og líðan ungs fólks bæði á Íslandi og erlendis. Niðurstöður rannsóknanna hafa verið nýttar á vettvangi meðal fólks sem starfar með börnum og unglingum, í forvarnavinnu, meðal stefnumótunaraðila og stjórnmálamanna. Eins hafa gögnin nýst meðal vísindamanna víða um heim við skrif og birtingar á tugum vísindagreina.Þrjú helstu markmið R&G eru:a) að sinna þekkingarsköpun og útbreiðslu þekkingar á málefnum ungs fólks |
Neysla á sér oftast aðdraganda og þar viljum við vinna," segir Alfa og bendir jafnframt á að notast sé við opinberar skýrslur og rannsóknir við að móta starfið. Hún nefnir m.a. rannsóknarmiðstöðina Rannsókn og greining, Espad, HBSC, skólapúls og ýmislegt sem sem kemur frá landlæknisembættinu. „Við sjáum sveiflur í starfinu en með þessu utanumhaldi höfum við náð að grípa inn í óæskilega hópamyndun og stöðva hana“.
„Við erum í miklu samstarfi við grunnskóla, framhaldsskóla, félagsþjónustu, barnavernd og lögreglu m.a. um forvarnastarf og skipulag forvarnamála. Við fundum m.a. með samtökum foreldrafélaga, Samtaka. Þær upplýsingar sem við höfum og vinnum út frá sýna okkur það að neysla á áfengi og fíkniefnum hefur dregist stórlega saman hjá unglingum á grunnskólaaldri,“ segir Alfa og leggur áherslu á að Norðurland skeri sig úr öðrum landshlutum hvað varðar þennan samaburð á landsvísu.
Hún bendir einnig á að vísbendingar séu um það að neysla hjá yngri árgöngum í framhaldsskólum hafi dregist saman. „Hins vegar eru ógnir í kringum okkur s.s. aukið framboð af efnum, aukinn ójöfnuður og ekki síst það hve auðvelt er að ná til barna með óæskilega hluti í gegnum netið, ekki bara hvað varðar fíkniefni heldur á svo fjölmargan hátt,“ segir Alfa og bætir við: „Þess vegna eru foreldrar óendanlega mikilvægir í því að fylgjast vel með netnotkun barna sinna. Við höfum boðið upp á ýmiskonar fræðslu bæði fyrir börn og foreldra um þessi mál en þátttaka foreldra í þeirri fræðslu sem við bjóðum upp á er því miður afar dræm. Í vetur gáfum við út segul þar sem búið er að setja saman leiðbeinandi tímaviðmið um netnotkun; sem dæmi um almenna forvarnaaðgerð. Seglinum var dreift inn á heimili allra grunnskólabarna á Akureyri.“
Alfa bendir á nauðsyn þess að starfa eftir þeirri grunnreglu að forvarnir séu samstarf. Það þurfi að passa upp á að beita sér þar sem þörfin er mest. „Nú undanfarin misseri hefur vandinn hjá grunnskólabörnum helst snúist um andlega líðan, kvíða og streitu. Þar höfum við unnið með skólum að fræðslu um geðheilbrigði ásamt því að bjóða upp á klúbbastarf ýmiskonar en virkni og þátttaka í uppbyggilegu tómstundastarfi vinnur gegn kvíða og streitu, en mikilvægt er að unnið sé meðvitað með þessa þætti.“ segir Alfa.
Umræða um rafrettur hefur verið áberandi í vetur og má jafnvel tala um tískufyrirbrigði í þeim efnum. Mjög skiptar skoðanir eru um ágæti rafrettunnar. Fjölmargir læknar hafa sagt rafrettuna vera frábæra lausn fyrir fólk sem vill hætta að reykja og geti þannig dregið verulega úr tíðni sjúkdóma sem tengjast reykingum. Enn aðrir hafa lýst yfir áhyggjum af vinsældum rafrettunnar og benda á að ekki liggi fyrir nógu áreiðanlegar rannsóknir á skaðsemi rafrettunnar til lengri tíma. Þá hefur einnig verið bent á það að rafrettan sé að ná töluverðum vinsældum meðal ungmenna sem ekki reyktu áður. Einnig eru vísbendingar uppi um að rafrettan sé notuð við fíkniefnaneyslu. „Við fylgjum leiðbeiningum landlæknis hvað rafretturnar varðar en þær eru einfaldlega bannaðar í öllu okkar starfi. Það er einnig minnst á þær í fræðslum sem farið er með inn í skólana. Einnig nýtum við tækifærin okkar til að hafa áhrif á ungmennin í gegnum verkefni sem við erum að vinna með þeim,“ segir Alfa.
Heimir Eggerz benti á í síðasta tölublaði Vikudags að dæmi væru um að fíkniefnasalar hafi selt fíkniefni á skólalóðum á Akureyri og hefðu jafnvel reynt að komst inn á grunnskólaböll í þeim tilgangi. Alfa segir að farið sé eftir sérstöku verklagi sem sett hafi verið á laggirnar til að fylgjast með öllum böllum sem haldin eru í sveitarfélaginu. „Þar gerum við miklar kröfur til öryggisgæslu og allrar umgjarðar. Það hefur reynst vel og er dæmi um samstarf margra s.s. lögreglu, sýslumannsembættisins og bæjarlögmanns. Það hefur tekist vel upp,“ segir hún og bætir við:
„Umræða um að fíkniefnasalar sitji um slíka viðburði er eitthvað sem við höfum heyrt af en við höfum engar staðfestar heimildir um slík tilfelli. Við gerum okkur grein fyrir að mikilvægast er að hafa öfluga gæslu, vera meðvituð og undirbúin en ekki að skapa ótta.“
Þá lýsir Alfa sérstökum áhyggjum af skorti á virkni og þátttöku hjá eldri ungmennum, slíkt geti þróast í óæskilegan farveg. „Brottfall úr framhaldsskólum er of mikið og það er verkefni sem þarf að ná betri tökum á. Við erum í samstarfi við ýmsa aðila vegna þessa s.s. framhaldsskóla, vinnumálastofnun, fjölskyldudeild, Fjölsmiðju og heilsugæslu svo eitthvað sé nefnt. Þar erum við að vinna að því að einfalda aðgengi að þjónustu og meiri samvinnu milli aðila,“ segir Alfa Aradóttir, deildarstjóri forvarna- og frístundadeildar hjá Akureyrarbæ.
Nokkur atriði til að draga úr líkum á að ungmenni leiðist út í neyslu:
Þessar tilllögur byggja á rýndum atriðum sem eiga að vera verndandi þættir fyrir börnin okkar. Flest þeirra eru ekki flókin í framkvæmd. |