Háskóli Íslands hefur kannað hvernig einkunnir nemenda við skólann skiptast eftir því úr hvaða framhaldsskóla nemendurnir koma. Nemendur úr Menntaskólanum á Akureyri eru í einu af fimm efstu sætunum á öllum fimm sviðum háskólans. Nemendur frá Menntaskólanum í Reykjavík eru í einu af fimm efstu sætunum í fjórum af fimm sviðum.
Munurinn á skólunum er ekki afgerandi en sumir skólar raðast oftar ofarlega en aðrir. Sömu framhaldsskólarnir eru ofarlega þegar skólunum er raðað eftir meðaleinkunn nemenda úr hverjum skóla þegar þeir eru komnir í Háskóla Íslands. Þetta sýna niðurstöður úttektar sem gerð var á vegum háskólans. Þetta kemur fram á visir.is og þar segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ að þessar niðurstöður séu til þess fallnar að slá á fordóma og stuðla að upplýstri umræðu. Hann segir vissulega mun á nemendum eftir því úr hvaða skólum þeir komi, en leggur áherslu á að munurinn sé tiltölulega lítill. Ólafur segir þá skóla sem gjarnan hafi verið taldir skila góðum nemendum koma vel út, en aðrir skólar skili einnig góðum nemendum. Þá verði að líta til þess að skólarnir fái misgóða nemendur úr grunnskólunum, og vel hugsanlegt að það hafi töluverð áhrif. Ólafur varar við því að horfa of mikið á röð skólanna, enda sé oft mjög lítill munur á milli skóla. Munurinn verði ýktur þegar skólunum er raðað eftir einkunnum nemenda.