Í gær var Dagur umhverfisins. Að því tilefni voru viðurkenningar afhentar á hátíðarathöfn í Listasafni Sigurjóns. Fjórir nemendur í 9. bekk Dalvíkurskóla hlutu einstaklingsviðurkenningu, þeir Helgi Halldórsson, Ragnar Freyr Jónasson, Sveinn Margeir Hauksson og Viktor Hugi Júlíusson. Viðurkenninguna fá þeir fyrir rapplagið Ekki menga! sem þeir sömdu í náttúrufræði og gerðu myndband við. Rapplagið hefur jafnframt verið valið sem umhverfissáttmáli skólans. Skilaboðin í myndbandinu eru skýr, við þurfum að hætta að menga til að eyðileggja ekki vistkerfi og umhverfi.
Við sama tækifæri var ÁTVR veittur Kuðungurinn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári; og nemendur í Grunnskóla Borgarfjarðar Eystri og Dalvíkurskóla útnefndir Varðliðar umhverfisins. Það var Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir sem veitti viðurkenningarnar. /EPE
Myndbandið „Ekki Menga“ má sjá hér að neðan: