Náttúrugripasafnið enn í kössum

„Náttúrugripasafnið á Akureyri er enn í kössum og er það bæjaryfirvalda að svara þeirri spurningu hvort eitthvað sé að gerast í málunum," segir dr. Kristinn J. Albertsson,
forstöðumaður Akureyrarseturs Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hann sagði að þegar Náttúrufræðistofnun Norðurlands hafi sameinast Náttúrufræðistofnun Íslands og orðið að Akureyrarsetri, hafi bæjarfélagið afhent ríkinu öll vísindasöfn gömlu stofnunarinnar, að undanskildum sýningarsal Náttúrugripasafnsins.

Sýningarsalur Náttúrugripasafnsins var áfram í eigu bæjarins og annaðist Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar Íslands daglegan rekstur hans. „Þegar bæjarfélagið ákvað að húsnæðið sem sýningarsalurinn var í skyldi frekar nýtast sem húsnæði Tónlistarskóla bæjarins, var safnmununum pakkað í kassa og komið fyrir í geymslu. Þegar safnið var flutt úr salnum lauk afskiptum Náttúrufræðistofnunar af sýningarsalnum," sagði Kristinn.

„Það er ekki á okkar færi að segja á nokkurn hátt til um nýjan sýningarsal. Ég get þó hnykkt á því að á sínum tíma þáði bæjarstjórn veglega gjöf Jakobs Karlssonar sem samanstóð af myndarlegu fugla- og eggjasafni og undirgekkst þá að hýsa safnið. Það var svo fremur grátlegt að safninu skyldi pakkað niður eftir að hafa verið rekið í 48 ár, sérstaklega þar sem Tónlistarskólinn nýtti ekki húsnæði sýningarsalarins nema í eitt eða tvö ár," sagði Kristinn.

Nýjast