Fjölmiðlafyrirtækið N4 á Akureyri er til sölu. Fjárfestingafélag í eigu KEA, Akureyrarbæjar og Lífeyrissjóðsins Stapa hefur sýnt kaupunum áhuga. N4 var stofnað árið 2000 og rekur það tvo miðla; prentaða dagskrá Norðurlands og sjónvarpsstöð. Einnig eru þar starfandi hönnunar- og framleiðsludeildir sem framleiða innlent sjónvarpsefni, kynningar- og auglýsingaefni.
Framkvæmdastjóri og eigandi N4 lést nýverið og er fyrirtækið nú komið í söluferli. Fjárfestingarfélagið Tækifæri hefur sýnt kaupunum áhuga og að sögn Steingríms Birgissonar, stjórnarformanns í Tækifæri, er búist við því að formlegar viðræður hefjist á næstu vikum.
Stærstu eigendur í Tækifæri eru KEA, Akureyrarbær og Lífeyrissjóðurinn Stapi. Steingrímur segir að engar stórar breytingar verði gerðar á miðlinum eða efnistökum N4, gangi kaupin í gegn. Ástæða þess að Tækifæri hafi sýnt kaupunum áhuga sé vilji til þess að festa miðilinn í sessi og viðhalda núverandi stefnu hans.
Þetta kemur fram á vef RÚV.