N1 verður bakhjarl Dagnýjar Lindu

Undirritaður hefur verið samstarfssamningur Skíðasambands Íslands, N1 hf. og Dagnýjar Lindu Kristjánsdóttur skíðakonu, sem felur í sér að N1 verður bakhjarl Dagnýjar Lindu og einn af aðalstyrktaraðilum Skíðasambandsins næstu þrjú árin. Dagný Linda hefur til fjölda ára verið í fremstu röð skíðakvenna hér á landi. Hún náði prýðilegum árangri á síðustu Ólympíuleikum og hefur verið að vinna sig upp heimslistann í sínum sterkustu greinum, sem eru risasvig og brun. Sem stendur er hún í 89. sæti á heimslistanum í bruni og 74. sæti í tvíkeppni - svigi og risasvigi.

Dagný Linda hefur æft stíft frá því í lok ágúst og stefnir að því að keppa á sínu fyrsta heimsbikarmóti í vetur í hraðagreinunum svokölluðu, risasvigi og bruni, í Aspen í Colorado í Bandaríkjunum 7. og 8. desember nk. Dagný Linda tók þátt í tveimur FIS-mótum í risasvigi í Hemsedal í Noregi sl. þriðjudag og miðvikudag. Fyrri daginn lenti hún í þriðja sæti og seinni daginn stóð hún uppi sem sigurvegari. „Samningurinn við N1 er að sjálfsögðu afar mikilvægur til þess að gera mér kleift að stunda mína íþrótt áfram af krafti og fyrir það er ég þakklát. Ég stefni að því að keppa í heimsbikarnum í Aspen viku af desember og síðan eru tvö önnur heimsbikarmót í Evrópu fyrir jól, annars vegar í Frakklandi og hins vegar í Austurríki. Eftir áramót eru síðan fjölmörg mót á dagskrá. Ég stefni eindregið á að keppa á Ólympíuleikunum árið 2010 í Kanada og þess vegna er þessi þriggja ára samningur við N1 mér mjög mikils virði," segir Dagný Linda Kristjánsdóttir í fréttatilkynningu frá SKÍ. Þjálfari hennar í vetur er Haukur Bjarnason.

Ingunn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri neytendasviðs N1, segir það sameiginlegt markmið N1 og Dagnýjar Lindu að koma henni á Ólympíuleikana í Kanada 2010. "Eins og með allar íþróttir, ekki síst árstíðabundnar eins og skíðaiðkun, þá skiptir undirbúningstíminn alveg gríðarlega miklu máli. Við vonum að okkar stuðningur geri það að verkum að Dagný Linda geti nú æft enn markvissar og við enn betri aðstæður en ella. Við erum stolt af stuðningi okkar við unga afreksmenn sem eru okkur og þjóðinni til mikils sóma."

Daníel Jakobsson, formaður Skíðasambandsins, fagnar því að stórfyrirtæki eins og N1 hafi ákveðið að styrkja Dagnýju Lindu og gera henni kleift að einbeita sér enn frekar að því að stunda sína íþrótt af kostgæfni. „Samningurinn léttir Skíðasambandinu og Dagnýju Lindu róðurinn við að stunda æfingar og keppa á mótum. Jafnframt er hann mikilvægur liður í að fjármagna undirbúning Dagnýjar Lindu fyrir næstu Ólympíuleika, sem verða í Vancouver í Kanada í febrúar 2010, en þangað stefnir hún ótrauð. Þessi samningur við N1 er að mínu mati mikil viðurkenning á Dagnýju Lindu sem íþróttamanni."

Nýjast