Gera má ráð fyrir því að bílar sem vega yfir þrjú og hálft tonn verði rukkaðir um allt að sex þúsund krónur fyrir að aka í gegnum Vaðlaheiðargöng en bílar sem vega minna verði rukkaðir um tæplega tvö þúsund krónur.
Þetta segir Valgeir Bergmann framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga í samtali við Morgunblaðið um gjaldtöku sem ráðgert er að hefjist þegar göngin verða opnuð 1. desember næstkomandi. Samkvæmt núverandi áætlunum verða heildartekjur af gjaldtökunni frá 800 milljónum króna til eins milljarðs króna. Til að innheimta gjaldið þegar ökumenn eiga leið um göngin verður notast við nýja tækni byggða á númeraplötugreiningu sem er lítt þekkt hér á landi.