Stefán Gunnlaugsson formaður KA sagði að árangur beggja blakliða félagsins væri glæsilegur og að ekki væri þess langt að bíða að stelpurnar lönduðu titli. Stefán sagði að 18 ár væru liðin frá því að KA vann síðast bikartitil í blaki. Hann sagði að fæðingin hefði verið erfið um helgina en þegar strákarnir hafi tekið á því í oddahrinunni, hefðu þeir sýnt að þeir væru bestir. Karlalið KA varð á dögunum deildarmeistari í blaki, bikarmeistari um helgina og sagðist Stefán vonast til að liðið næði þrennunni en framundan er úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn.
Sigurður Arnar Ólafsson formaður blakdeildar KA gat ekki tekið þátt í fagnaðarlátunum, þar sem hann er við vinnu í Noregi. Fram kom í móttökunni í dag að Sigurður Arnar hefði unnið gríðarlega gott starf fyrir blakdeildina og að skarð hans yrði vandfyllt.