Mótorhjólasafn Íslands var formlega opnað í dag

Mótorhjólasafn Íslands var formlega opnað í dag sunnudaginn 15. maí, á afmælisdegi Heiðars Þ. Jóhannssonar, en Heiddi hefði orðið 57 ára í dag. Mótorhjólasafnið var stofnað í lok árs 2007 til minningar um Heidda sem lést sumarið 2006 í hörmulegu bifhjólaslysi í Öræfasveit á leið heim af landsmóti Snigla. Heiddi var af flestum bifhjólamönnum talinn mesti hjólamaður á landinu, jafnvígur á hvaða hjól sem er.  

Að undanförnu hefur verið unnið hörðum höndum við undirbúining fyrir opnunina í dag og uppstillingu safnsins. Jóhann Freyr Jónsson safnstjóri segir að safnið eigi hátt í 100 hjól en ekki eru þau öll komin á safnið og mörg þeirra á eftir að gera upp og lagfæra. Jóhann hafði ekki tölu yfir fjölda hjóla á safninu en lang flest þeirra hjóla sem eru til sýnis eru í eigu safnsins. Safnið hefur verið  um tvö ár í byggingu en fyrstu skóflustungurnar voru teknar á Hjóladögum 2008. Heiddi hafði safnað mótorhjólum og hjólatengdum munum í mörg ár og hafði lengi átt sér þann draum að opna mótorhjólasafn. Hann lét eftir sig vel á þriðja tug hjóla og mikið magn bifhjólatengdra hluta. Á safninu er sérstök deild tengd Heidda, þar sem er að finna hjól og muni sem voru í hans eigu. Mótorhjólasafni Íslands er ætlað að sýna og varðveita sögu mótorhjóla á Íslandi í máli, munum og myndum ásamt því að varðveita minningu Heidda og það spor sem hann skyldi eftir sig á hjólamenningu landsmanna.


Athugasemdir

Nýjast