Eldur var kveiktur á Ráðhústorgi, flugeldum skotið á loft, kínverjar sprengdir, auk þess sem mótmælendur "spiluðu" á trommur, pottlok og fleira og tóku lagið, auk þess sem ökumenn á rúntinum þeyttu bílflautur sínar. Boðað var til mótmælafundar kl. 17.00 í dag og mætti fjöldi fólks á Ráðhústorg. Upp úr kl. 18.00 var hlé gert á mótmælunum, fram yfir borgarafund sem haldinn var í Deiglunni kl. 20.00, þar sem mótmælt var niðurskurði til menntamála. Eftir borgarafundinn mætti svo fjöldi fólks aftur á Ráðhústorg og er þar enn. Þetta er annað kvöldið í röð sem mótmælt er á Akureyri, þar sem jafnframt var verið að sýna mótmælendum í Reykjavík samstöðu.