Mótmæla skerðingu eldri nemenda
Kennarar í Verkmenntaskólanum á Akureyri hafa sent frá sér ályktun þar sem þeir mótmæla harðlega áformum ríkisstjórnar og menntamálaráðherra um að skerða aðgang nemenda eldri en 25 ára að bóknámi í framhaldsskólum. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 er nú gert ráð fyrir því að fækka ársnemendum í framhaldsskólum um tæplega eitt þúsund, m.a. með því að meina eldri nemendum um aðgang að skólunum.
"Menntun er mikilvæg leið að bættum hag og betri líðan einstaklinga á öllum aldri og fjárfesting í menntun, hvort sem nemandinn er tvítugur eða þrítugur, skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Kennarar skora því á menntamálaráðherra að draga þessar tillögur sínar þegar í stað til baka og hvetja Alþingi til að sjá til þess að frelsi allra Íslendinga til náms verði tryggt," segir ályktun.