Mótmæla áformum Illuga

Menntaskólinn á Akureyri.
Menntaskólinn á Akureyri.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur kynnt stjórnendum framhaldsskóla á Norðurlandi tillögur um sameiningu þeirra, annars vegar Menntaskólans á Akureyri, Menntaskólans á Tröllaskaga og Framhaldsskólans á Húsavík, hins vegar Verkmenntaskólans á Akureyri og Framhaldsskólans á Laugum.

Kennarafélög allra skólanna sem um ræðir lýsa megnri óánægju með það virðingarleysi sem ráðuneytið sýnir skólunum með vinnubrögðum við undirbúning tillagnanna og því hvað þær eru seint fram komnar.

„Tillögurnar eru unnar án nokkurs samráðs við stjórnendur og starfsfólk skólanna, þær byggja á afar óljósum faglegum forsendum og taka ekkert mið af hugmyndum heimamanna um hvernig skipulagi framhaldsskólastarfs á svæðinu verði best háttað. Við teljum að tillögurnar séu liður í að draga úr fjárframlögum til skólanna og skerða þannig það nám sem nemendum svæðisins stendur nú til boða því að engin haldbær rök hafa verið færð fyrir því að sameining skólanna bæti faglegt starf þeirra.

Síðast en ekki síst mótmælum við því harðlega að skólunum skuli ætlað að takast á við þetta verkefni á sama tíma og unnið er að viðamiklum og mikilvægum nýjum viðfangsefnum s.s. innleiðingu nýrra skólanámskráa og upptöku nýrra vinnumatsaðferða í skólunum. Við krefjumst þess að ráðuneytið dragi þessar hugmyndir þegar í stað til baka en hvetjum ráðherra þess í stað til að vinna að auknu samstarfi ofangreindra framhaldsskóla sem skipulagt yrði á forsendum skólanna og byggðanna sem þeir þjóna," segir í ályktun.

 

Nýjast