Mjög góð kjörsókn á Akureyri það sem af er degi

Kjörfundur vegna bæjarstjórnarkosninganna á Akureyri hófst kl. 09:00 í morgun og er kjörsókn góð, að sögn Helga Teits Helgasonar formanns kjörstjórnar. Nú kl. 14:00 höfðu 3.480 manns kosið í Verkmenntaskólanum á Akureyri, sem þýðir 27,3% kjörsókn en á kjörskrá eru 12775. Í kosningunum 2006 var kjörsóknin 23,7% á þessum tíma og 25,4% í alþingiskosningunum á síðasta ári.  

Helgi Teitur segir að það stefni í að kosningaþáttaka verði góð á Akureyri og jafnvel mjög góð. Það sé því ekki yfir neinu að kvarta, enda hafi allt gengið mjög vel á kjörstað í VMA. Um 940 utankjörfundaratkvæði höfðu borist kjörstjórn í morgun og átti Helgi Teitur ekki von á að þeim myndi fjölga nema um 100 það eftir lifir dags. Hann segir að farið verði að flokka atkvæði um kl. 18:00 en talning hefst svo um leið og kjörfundi lýkur kl. 22:00. Hann á von á fyrstu tölum frá Akureyri fljótlega upp úr kl. 22.00.

Nýjast