„Við hittumst á fyrsta fundi í gær og ætlum að funda áfram í dag,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri, í samtali við Vikudag um þreifingar á meirihlutasamstarfi.
Allir þrír flokkarnir sem mynduðu meirihluta á Akureyri á síðasta kjörtímabili, L-listinn, Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn, fengu tvo menn kjörna hver af ellefu mönnum í bæjarstjórninni í kosningunum sl. helgi. Meirihlutinn hélt því velli og ræða flokkarnir saman um áframhaldandi samstarf.
„Okkur liggur ekkert lífið á og ætlum að sjá til hvernig þetta þróast og taka svo stöðina um mánaðarmótin. Það er nýtt fólk að koma inn í bæjarstjórn í flokkunum og við ætlum að halda áfram að heyra í hvort öðru og hvort við náum ekki saman. Þetta mun skýrast á næstu dögum,“ segir Guðmundur.
Spurður hvort hann sé bjartsýnn á viðræðurnar segir Guðmundur: „Málefnaleg séð náum við alveg saman þannig að já, ég er frekar bjartsýnn á að þetta gangi eftir.“