Misskilningur í ljósvakamiðlum

Stjórn Greiðrar leiðar ehf. hefur sent frá sér tilkynningu, þar sem segir m.a. að alvarlegs misskilnings hafi gætt í fréttaflutningi ljósvakamiðla af fréttamannafundi sem Greið leið boðaði til í gær.  Í fréttum af fundinum kom fram að undirbúningur félagsins að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði hefði verið stöðvaður. Þetta sé rangt og hafi hvorki komið fram í máli forsvarsmanna Greiðrar leiðar né í fréttatilkynningu félagsins í gær. Undirbúningur að verkefninu er í gangi, segir ennfremur í tilkynningunni og verður það á meðan félagið er til - þó ljóst sé að framkvæmdir muni dragast frá upphaflegum áætlunum Greiðrar leiðar. Á grundvelli samgönguáætlunar 2007-2010 var Vegagerðinni falið að taka upp samningaviðræður við stjórn Greiðrar leiðar. Einn fundur hefur verið haldinn.  Samningsumboð Vegagerðarinnar takmarkast hins vegar við gildandi samgönguáætlun. Stefnt er að öðrum fundi upp úr miðjum maí með það að markmiði að leggja fram sameiginlega tillögu um aukna aðkomu ríkisins að verkefninu.

Fyrir liggur að leggja verður fyrir Alþingi tillögu til samþykkis um þátt ríkisins í verkefninu umfram þá fjármuni sem markaðir eru verkefninu í gildandi samgönguáætlun. Það skal ítrekað að stjórn Greiðrar leiðar væntir þess að samgönguyfirvöld og Alþingi tryggi farsæla afgreiðslu málsins á þingi. Að öðru leyti vísast til fréttatilkynningar sem Greið leið lagði fram á fréttamannafundi 3. maí sl., segir í tilkynningunni.

Nýjast