Fjárhagsstaða stærstu sveitarfélaga landsins batnaði almennt á milli áranna 2012 og 2013. Sex stærstu sveitarfélögin, þ.e. sveitarfélög sem hafa fleiri en tíu þúsund íbúa, skulda samtals tæpa 443 milljarða króna sem er lækkun úr tæpum 478 milljörðum árið 2012. Þrátt fyrir batnandi stöðu þá skulda þrjú af sex stærstu sveitarfélögunum meira en 200% af tekjum sínum og einungis tvö þeirra skulda minna en 150% af tekjum sínum, en það er viðmið um skuldahlutfall sem kveðið er á um sveitarstjórnarlögum.
Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu en þar kemur fram að rekstrarniðurstaða Akureyrarbæjar hafi batnað mikið á árinu 2013. Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, að heildarskuldir sveitarfélagsins hafi lækkað um einn milljarð króna á árinu.
Góða afkomu á árinu 2013 og betri stöðu sveitarfélagsins má m.a. skýra með auknum tekjum, gengisþróun og lágri verðbólgu auk þess sem virkt aðhald hefur verið í öllum rekstri. Allt frá hruni hefur verið gætt ítrasta aðhalds í öllum rekstri en með auknum hagvexti sjáum við fram á að hægt verði að bæta í og auka þjónustu og horfum við fyrst til velferðar- og skólamála, segir Guðmundur Baldvin.