Misjafnar skoðanir bæjarfulltrúa til umdeildra bygginga

Líkani af fyrirhuguðum byggingum við Tónatröð.
Líkani af fyrirhuguðum byggingum við Tónatröð.

Fyrirhugaðar háhýsabyggingar á Oddeyrinni á Akureyri hafa vakið mikið umtal í bænum og verið gagnrýndar. Sömu sögu er að segja af fyrirhuguðum byggingum við Tónatröð. SS Byggir kynnti nýverið skipulagsyfirvöldum bæjarins hugmyndir að uppbyggingu við Tónatröð í Innbænum neðan við sjúkrahúsið. Fyrirtækið hefur áhuga á að reisa þar fimm fjölbýlishús.

Bæjarbúar hafa undanfarið kallað eftir áliti bæjarfulltrúa á byggingunum bæði á Oddeyri og Tónatröð og fékk Vikublaðið oddvitana í bæjarstjórn Akureyrar til að gefa sitt álit.

Spurt var: Hver er þín afstaða varðandi framkomnar hugmyndir um háhýsabyggð á Oddeyrinni og í Tónatröð?

Ekki hlynnt framkomnum hugmyndum

Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, segist ekki vilja sjá háhýsabyggð á Oddeyrinni né Tónatröð. „Til þess að tala alveg skýrt þá vil ég sjá metnaðarfulla uppbyggingu á Akureyri og að við náum að fara upp úr hjólförum stöðnunar. Við verðum að horfa til þess að þétta byggð og nýta landrými sem best. Ég tel hins vegar líka mjög mikilvægt að horfa til fjölmargra annarra þátta s.s. ásýndar, umhverfis, almannarýmis o.s.frv. Á þeim forsendum er ég ekki hlynnt framkomnum hugmyndum um háhýsi á Oddeyrinni og í Tónatröð og mun greiða atkvæði gegn tillögum þess efnis komi þær til meðferðar í bæjarstjórn,“ segir Hilda Jana.

Fullhátt við Tónatröð

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir að hlusta þurfi á bæjarbúa. „Sú tillaga að breytingu á aðalskipulagi Oddeyrar, sem nú er í lokameðferð innan bæjarkerfisins, hefur mætt mikilli andstöðu meðal bæjarbúa og ég tel að tillit þurfi að taka til þeirra athugasemda og mun það koma fram við afgreiðslu málsins. Varðandi Tónatröðina þá er hér um að ræða hugmynd sem kom frá verktaka og ég hef lýst þeirri skoðun minni að þetta sé fullhátt og of mikið byggingamagn. Ég er þó þeirrar skoðunar að við eigum að skoða allar hugmyndir og er almennt hlynntur því að við byggjum hærra upp í loftið þar sem við á,“ segir Guðmundur.

„Ófagleg og óeðlileg stjórnsýsla“

Sóley Björk Stefánsdóttir bæjarfulltrúi Vg leggur áherslu á Tónatröðina í sínu svari. „Því ekki allir gera sér grein fyrir því hversu óeðlileg stjórnsýsla á sér stað í því máli. Árið 2018 hafnaði skipulagsráð í þrígang umsókn frá verktakanum Hoffelli ehf. sem lagði fram hugmyndir um byggingu stærri húsa í Tónatröð en deiliskipulag kveður á um. Í bókunum skipulagsráðs við þeirri umleitan telur skipulagsráð 6 íbúða fjölbýlishús samræmist ekki útliti og yfirbragði nærliggjandi byggðar og leggur áherslu á að nýbyggingar skuli falla sem best að landhallanum. Þetta er sama skipulagsráð og nú tekur vel í erindi SS Byggis um byggingu mun stærri húsa. Þetta er í mínum huga mjög ófagleg og óeðlileg stjórnsýsla. Hugmyndir um háhýsabyggð á Oddeyri hugnast mér ekki og ganga gegn aðalskipulagi sem unnið var í miklu samráði við íbúa fyrir stuttu síðan,“ segir Sóley.  

Líkan af fyrirhuguðum byggingum á Oddeyrinni

Ekki slæmar hugmyndir

Hlynur Jóhannsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins, segir að við fyrstu sýn finnist honum húsin við Tónatröðina ekki svo slæm. „Ég myndi að vísu vilja sjá endanlegt útlit á þeim og einnig lækka þær um eina hæð. Svo finnst mér skipta miklu máli að skipulagið sýni fram á að auðvelt sé að koma þeirri umferð fyrir sem fylgir öllum þessum íbúðum. Ég held það séu flestir sammála því að eitthvað þurfi að gera á Oddeyrinni. Hvort það eigi að vera akkúrat svona byggingar eins og voru kynntar fyrir okkur er spurning en ef spurningin snýr að hæðinni þá finnst mér ekkert athugavert við það að fara í sex hæða hús þarna svo lengi sem það hafi engin áhrif á flugvöllinn,“ segir Hlynur.

Þróa þurfi hugmyndirnar betur

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórar og bæjarfulltrúi L-listans, segir mikilvægt í sínum huga að þétta byggðina til að nýta betur margvíslega innviði. „Núgildandi skipulag á Oddeyrinni hefur að mínu mati ekki hvatt nægilega til uppbyggingar. Ég er því hlynnt breytingum á skipulaginu, en þó þannig að þær rýri ekki möguleika Akureyrarflugvallar til vaxtar. Margar athugasemdir hafa borist sem ég tel nauðsynlegt að taka tillit til og tel að byggð sem gæfi möguleika á fimm til sex hæðum vera eitthvað sem mætti kjósa um. Varðandi Tónatröð tel ég skynsamlegt að skipulagsráð leggi til breytt skipulag sem leyfi fjölbýli og auglýsi síðan lóðirnar í framhaldinu. Þær hugmyndir sem kastað hefur verið fram komu umræðunni af stað en þyrfti að mínu mati að þróa mun betur,“ segir Halla Björk.

Mikilvægt að fá umræðu meðal íbúa

Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að þegar hugmyndir komu fram um háhýsi á Oddeyrinni hafi honum fundist eðlilegt að bæjarstjórnin myndi hleypa þeim hugmyndum áfram og fá umræðu um þær meðal íbúa. „Ég er þeirrar skoðunar að við 11 bæjarfulltrúar eigum ekki að ráða því einhliða hvað fer í umræðu meðal íbúa og hvað ekki. Það á sérstaklega við um mál eða hugmyndir sem voru ekki á dagskrá fyrir síðustu kosningar. Það kom þó alltaf fram hjá mér og okkur öllum að við yrðum að gæta þess að slík hús myndu ekki trufla aðflug að flugvellinum. Vegna mikillar andstöðu sem kom fram var sú tillaga samþykkt í bæjarstjórn að skipulag sem gerði ráð fyrir 25 metra háum húsum myndi fara í íbúakosningu ef af yrði. Ég er þeirrar skoðunar í dag að hús á þessum stað á Oddeyrinni eigi ekki að vera hærri en 20 m eða fimm hæðir mest. Varðandi hugmyndir í Tónatröð sem fram hafa komið, þá vil ég sjá þær hugmyndir þróaðar áfram og get séð fyrir mér að þar rísi hús í þeim dúr sem kynnt hafa verið,“ segir Gunnar.


Athugasemdir

Nýjast