Á morgun, laugardag, verða haldnir tónleikar í menningarhúsinu Hofi á Akureyri á vegum Populus tremula sem starfað hefur í tíu ár samfleytt og sett svip sinn á menningarlífið í bænum. Tónleikarnir eru haldnir til minningar um aðalhvatamann og leiðtoga Populus tremula, Sigurð Heiðar Jónsson. Á tónleikunum í Hofi mun Populus- hljómsveitin einskorða sig við lög eftir þrjá tónlistarmenn sem hún hefur sérhæft sig í; þá Tom Waits, Nick Cave og Cornelis Vreeswijk.
Auk fastra meðlima hljómsveitarinnar munu koma fram tveir víðkunnir gestasöngvarar þau Sigríður Thorlacius og Valdimar Guðmundsson. Hljómsveitin sjálf, Húsband Populus tremula, skipa þeir Kristján Pétur Sigurðsson söngur, Arna Valsdóttir söngur, Arnar Tryggason hljómborð og harmónika, Bárður Sigurðsson gítar og banjó, Guðmundur Egill Erlendsson gítar, Hjálmar Stefán Brynjólfsson bassi o.fl. og Orri Einarsson trommur.
Í fréttatilkynningu segir að Sigurður Heiðar Jónsson hafi verið einlægur unnandi fagurra lista og húmanisti fram í fingurgóma. Uppruna hljómsveitarinnar má rekja til þess að hann safnaði saman góðu fólki til að búa til tónlistardagskrá með lögum Cornelis Vreeswijk árið 2002. Hann lét ekki þar staðar numið heldur varð hvatamaður að stofnun og leiðtogi Populus tremula, allt frá fyrstu hugmynd og uns hann varð að láta undan fyrir MNDsjúkdómnum snemmsumars 2011, langt fyrir aldur fram.