Ólafur segir sauðburð vel á veg kominn og margir bændur hafi sett ær með lömb út. Hann bendir á að ær sem hafi mjólkað í um það bil tvær vikur líkt og algengt er nú á þessum tíma séu sérlega viðkvæmar fyrir vorhretinu, lömbin séu aftur á móti orðin stálpuð, þau séu pattaraleg og þoli leiðindaveður. „Mæðurnar eru hins vegar mjög viðkvæmar á þessum tíma og séu þær úti í mikilli bleytu og hvassviðri eru líkur á að þær geti orðið geldar og mjólki lítið sem ekkert það sem eftir er af er sumri. Við hvetjum því bændur til að koma fé sínu í skjól áður en hretið skellur yfir af fullum þunga," segir Ólafur.