Mikilvægt að hægja á frekari framkvæmdum

Áhersla verður lögð á að ljúka þeim stóru framkvæmdum  á vegum Akureyrarbæjar sem þegar eru hafnar. Stærstu verkefnin sem í þann flokk falla eru bygging menningarhússins Hofs og íþróttamiðstöð við Giljaskóla.  Á næsta ári verður varið um 1,4 milljarði króna til framkvæmda á vegum aðalsjóðs Akureyrarbæjar.  

Af því fé sem til ráðstöfunar er fara um 916 milljónir króna til að ljúka byggingu menningarhússins og um 300 milljónir króna í byggingu íþróttamiðstöðvar við Giljaskóla. Framkvæmdir á vegum eignasjóðs gatna eru áætlaðar fyrir um 250 milljónir króna. Loks gerir áætlunin ráð fyrir því að á vegum B-hluta fyrirtækja verði framkvæmt  fyrir um 600 milljónir.

Alls gerir áætlunin ráð fyrir því að framkvæmdir á vegum bæjarins og fyrirtækja hans muni kosta um 2,3 milljarða króna samanborið við 2,8 milljarða á þessu ári og svipaða upphæð á árinu 2008. „Bærinn mun því eftir sem áður standa fyrir uppbyggingu og framkvæmdum á árinu 2010 en ljóst er að mikilvægt er að hægja á í þeim efnum af hálfu bæjarins og þess sér nú þegar stað í áætlunum hans til lengri tíma. Fyrir liggur að á milli umræðna um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn verður farið yfir það hvort skynsamlegt sé að draga enn frekar úr framkvæmdum en gert er ráð fyrir í þessari áætlun," sagði Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri þegar fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 var til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar.

Nýjast