„Mikilvægt að brugðist verði við“

Margt er barn síns tíma á lögreglustöðinni á Akureyri, t.a.m. gæsluvarðhaldsklefi, rannsóknarrými og…
Margt er barn síns tíma á lögreglustöðinni á Akureyri, t.a.m. gæsluvarðhaldsklefi, rannsóknarrými og búningsaðstaða.

„Lögreglustöðin er orðin alltof lítil og mjög mikilvægt að brugðist verði við,“ segir Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á Norðurlandi eystra. Eins og fjallað var um í síðasta blaði er húsnæði lögreglunnar á Akureyri afar þröngt.

Allsherjar- og menntamálanefnd alþingis kom í heimsókn til Akureyrar á dögunum og heimsótti m.a. lögregluna á Norðurlandi eystra sem hefur aðsetur á Akureyri. Í umsögn um heimsóknina á vef alþingis segir að þar fari fram mjög mikilvæg vinna við afar erfiðar vinnuaðstæður. Húsnæðið sé löngu sprungið og aðstaðan sláandi.

Halla Bergþóra segir að óskað hafi verið eftir stækkun á lögreglustöðinni í febrúar árið 2016 og hefur erindið verið í vinnslu síðan þá hjá Framkvæmdarsýslu ríkisins. „Við sameiningu embættanna árið 2015 varð grundvallar breyting á skipulagi og í þetta húsnæði hér kom fullt af starfsemi sem ekki var gert ráð fyrir er lögreglustöðin var byggð. Mörg stöðugildi hafa bæst við en húsið ekki stækkað. Þá er margt hér barns síns tíma, s.s. rannsóknarrými, búningsaðstaða, matsalur/kaffistofa, afgreiðsla, gæsluvarðhaldsklefi, bílageymslur og allar geymslur yfir höfuð,“ segir Halla Bergþóra.


Nýjast