Mikill sóðaskapur í miðbænum á Akureyri

Töluverður sóðaskapur er sjáanlegur í miðbænum á Akureyri eftir gleðskap um helgar og finnst mörgum nóg um. Vikudagur fékk á dögunum sendar ljósmyndir, sem sýna vel það ástand sem þar er eftir helgar. Jón Birgir Gunnlaugsson verkefnisstjóri umhverfismála hjá framkvæmdadeild bæjarins segir að það sem sést á þessum myndum sé ekkert nýtt fyrir þeim.  

"Það versta er að þetta á ekki bara við um miðbæinn heldur allan bæinn. Ég get vel skilið að fólk hafi af þessu áhyggjur en þrátt fyrir alla umræðu og fræðslu um umhverfismál þá hefur þessi hlutur aukist gríðarlega, fólk virðist bókstaflega losa sig við hluti þar sem það er statt. Við fjölguðum rusladöllum um 20 á síðasta ári og þeim hefur einnig fjölgað í ár. Varðandi veitingastaðina, þá á bærinn gangstéttarnar og eigendum virðist slétt sama hvort þeir komi að þessu svona, því ekki hafa þeir kvartað við okkur," segir Jón Birgir.

Hann segir að ný lögreglusamþykkt taki gildi um áramót og hann vonar að með henni takist að koma fyrir margt af því sem nú líðst. "Reglur í miðbænum um helgar eru í sjálfu sér engar, nema að hér áður fyrr fórum við með mannskap hvern morgun um helgar og hreinsuðum upp ruslið en höfum undanfarið ár aðeins farið á mánudagsmorgnum."

Málið hefur verið til umræðu í framkvæmdaráði, enda hafa borist fleiri kvartanir og myndir til framkvæmdadeildar. Væntanlega verður farið í að hreinsa miðbæinn fyrstu helgina í hverjum mánuði nú í vetur og í tengslum við aðrar uppákomur sem skipulagðar eru og gætu haft aukið rusl í för með sér.

Nýjast