Mikill samdráttur í lönduðum afla

Mikill samdráttur varð í lönduðum afla á Akureyri milli áranna 2005 og 2006 og er samdrátturinn nær allur í loðnu og síld. Landaður afli  á Akureyri á síðasta ári nam tæpum 42.400 tonnum en var árið 2005  rúmlega 65.600 tonnun. Landaður afli á Akureyri hefur ekki verið minni frá árunum 1991 og 1990.

Árið 2005 bárust rúmlega 27.000 tonn af loðnu í Krossanes en á síðasta ári aðeins tæplega 2.400 tonn. Þá bárust tæplega 16.000 tonn af síld í Krossanes árið 2005 en rúmlega 13.100 tonn í fyrra. Þá barst heldur minni rækjuafli á land á Akureyri í fyrra en árið áður. Hins vegar barst mun meira af frystum fiski til Akureyrar í fyrra en árið áður eða tæplega 13.000 tonn. Þetta er meiri afli en nokkru sinni og þarf að fara aftur til ársins 1993 til að finna sambærilega tölu. Þá barst heldur meira af bolfiski á land í fyrra en árið áður, eða sem nemur 450 tonnum. Árið 2006 var landaður bolfiskafli 10.442 tonn.

Mestur afli sem borist hefur á land á Akureyri á síðustu 20 árum, var árið 2002, eða tæplega 106 þúsund tonn. Þar af var loðnuaflinn um 70.500 tonn og síldaraflinn um 8.300 tonn. Árið eftir var landaður afli á Akureyri um 88.900 tonn og þar af loðnuaflinn um 53.000 tonn  og síldaraflinn rúmlega 10.300 tonn.

Nýjast