Mikill eldur í Hrísey

Mikill viðbúnaður er í Hrísey. Mynd/Lögreglan.
Mikill viðbúnaður er í Hrísey. Mynd/Lögreglan.
Eldur kom upp í frystihúsi Hrísey Seafood í nótt er að berast í nærliggjandi hús. Um 20 slökkviliðsmenn hjá Slökkviliði Akureyrar ásamt slökkviðliðsmönnum í Hrísey eru í mikilli varnarbaráttu að sögn slökkviliðsstjóra. Eitruð efni og gös eru í húsinu svo það gæti þurft að rýma hluta eyjarinnar. Þyrla Gæslunnar er á leið norður.
 
Frá þessu er greint á vef Rúv.
 

„Við erum ekki að sjá fyrir endann á þessu. Við erum ennþá að berjast við að reyna að koma í veg fyrir að það kvikni í nærliggjandi húsum og það var nú bara rétt í þessu að koma í ljós að það væri sennilega byrjað að loga í öðru húsi líka. Norðurendi frystihússins er fullur af reyk og það gengur illa að ná tökum á því. Við erum í mikilli varnarbaráttu hérna og gengur ekkert sérstaklega vel,“ segir Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði Akureyrar.

Í frystihúsinu er amoníakskerfi sem Ólafur segir líklegt að hafi sprungið. „Það voru miklar sprengingar hérna áðan. Það eru líka gaskútar og allskonar dót sem fylgir svona frystihúsum,“ segir Ólafur. 

Lögreglan á Norðurlandi eystra biður íbúa um að loka öllum gluggum og kynda vel í húsum sínum þar sem slíkt komi í veg fyrir að reykur berist inn.

Fleiri slökkviliðsmenn eru á leiðinni til Hríseyjar með Hríseyjarferjunni, fiskibátum og björgunarsveitarbát frá Dalvík. Þá er þyrla Landhelgisgæslunnar á leið norður til að vera til taks. 

„Við erum að huga að því að fá strætó hérna á sandinn til að taka við fólki ef við þurfum að rýma hús, það gæti komið til þess,“ segir Ólafur í samtali við vef Rúv.


Nýjast