Mikil vinna fyrir bændur

Ferna með lömbin sín. Mynd/Margrét Þóra.
Ferna með lömbin sín. Mynd/Margrét Þóra.

Sauðburður er misjafnlega langt á veg komin í Eyjafirði, allt frá því að vera nærri lokið á einstaka bæjum og um það bil að hefjast á öðru. Allt hefur þó gengið nokkuðr snuðrulaust fyrir sig enn sem komið er þrátt fyrir kalt vor. Ólafur G. Vagnsson ráðunautur segir að aðstæður í fjárhúsum skipti mestu þegar vorið er kalt, þ.e. að nægt húspláss sé fyrir hendi, en þar sem enn er snjór yfir öllu hefur fé ekki verið hleypt út enn.

„Þetta er fyrst og fremst ofboðslega vinna og mikið álag á þá bændur þar sem ekki er hægt að hleypa fé út,“ segir hann, en mestur er snjórinn í Svarfaðardal, framm í dölum í Hörgár- og Öxnadal og almennt við utanverðan Eyjafjörð. Í Eyjafjarðarsveit hefur snjó hins vegar víðast tekið upp. „Það skiptir öllu að geta hleypt lambfé út, löng húsvist getur aukið hættu á sjúkdómum og vanhöld,“ segir Ólafur, en stálpuð lömb, hálfs mánaðar gömul eða svo þurfa að komast út í hreina loftið og hreyfa sig.

Hætti er á að þau gangi hart að móður sinni í langri húsvist sem aftur getur haft þau áhrif að kindur sárni á spena og fá jafnvel júgurbólgu.

„Ég held þetta hafi enn sem komið er sloppið vel til, en vissulega væri gott að fá örlítið meiri hlýindi þannig að hægt sé að hleypa út. Það skiptir bændur líka gríðarlega miklu máli, að hafa allt fé á húsi stóreykur alla þeirra vinnu,“ segir Ólafur.

Nýjast