Soffía Rut Guðmundsdóttir var gestur númer 3.000 og var hún leyst út með gjafabréfi fyrir tvo á sýningu hjá Freyvangsleikhúsinu á næsta leikári. Auk þess fékk hún dýrin í hálsskógi boli, piparkökur og Reykja gulrætur. Gert er ráð fyrir að sýningum ljúki í lok þessa mánaðar og líklega verður hætt að sýna fyrir fullu húsi. Því eru uppi hugmyndir að setja sýninguna jafnvel af stað aftur í haust en það er þó ekki alveg ákveðið. Leikhópurinn hefur verið samstíga og mikil gleði ríkjandi í kringum þessa uppfærslu.
Leikdeild Eflingar hefur sýnt Ólafíu, nýtt frumsamið leikverk eftir Hörð Þór Benónýsson, að Breiðumýri í Reykjadal að undanförnu. Sýningin hefur fengið mjög góða dóma og verið gríðarlega vel tekið. Alls hafa verið 13 sýningar til þessa og eru gestir orðnir á annað þúsund talsins. Verkið fjallar m.a. um ungt fólk, gleði þess og sorgir, það áreiti sem það verður fyrir í lífinu og samskipti þess við fólk af eldri kynslóðum. Sýningin höfðar til fólks á öllum aldri, enda er í henni fjallað um málefni sem varðar alla, unga sem aldna. Síðustu sýningar á Ólafíu eru næstkomandi miðvikudag, fimmtudag og föstudag.
Leikfélag Hörgdæla hefur í vetur sýnt leikritið; Lífið liggur við, efir Hlín Agnarsdóttir, á Melum en sýningum hefur verið hætt. Sýningin fékk mjög góða dóma og var ágætlega sótt. Alls urðu sýningarnar 13 og voru gestir um 750 talsins. Forsvarsmenn leikfélagsins telja að aðsóknin hefði alveg mátt vera betri en þeir eru engu að síður ánægðir með hvernig til tókst og að það skipti miklu máli.
Þá má geta þess að Freyvangsleikhúsið er eitt þriggja íslenskra leikfélaga sem valið hefur verið á Neata hátíðina. Um er að ræða alþjóðlega leiklistarhátíð áhugaleikfélaga víða um heim, m.a. frá Noregi, Finnlandi, Danmörku, Svíþjóð, Færeyjum og Frakklandi. Alls taka tíu lönd þátt í hátíðinni sem verður sett upp í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Leikverkið frá Freyvangsleikhúsinu er Vínland, eftir Helga Þórsson, sem var uppsetning félagsins í fyrra og var valið áhugaverðasta áhugaleiksýningin 2009 og var sett upp í Þjóðleikhúsinu.