Mikil fjölgun ungmenna í Vinnuskólanum

Mynd/Akureyri.is
Mynd/Akureyri.is

Alls 696 ungmenni sóttu um í Vinnuskóla Akureyrar í sumar sem er fjölgun um ríflega 50% frá 2019. Mest er aukningin meðal 17 ára umsækjenda, eða 126 umsóknir samanborið við 38 í fyrra. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar. Bæjarráð samþykkti nýverið tímafjölda hjá starfsfólki Vinnuskólans. 14 ára börnum (fædd 2006) stendur til boða 105 klukkustundir í sumar en 15 ára geta unnið í 120 tíma. 16 ára eiga kost á 140 tíma vinnu en elsta árganginum, 17 ára, stendur til boða 200 klukkustunda vinna í sumar.

Styttri vinnulotur en lengri tímabil

Vegna stóraukinnar þátttöku, og til þess að tryggja öllum vinnu, hefur þurft að endurskoða fyrirkomulagið og í sumum tilvikum fækka tímum frá í fyrra. Á hinn bóginn er mikilvægt að halda ungmennum í virkni og því hefur verið ákveðið, að höfðu samráði við forvarna- og félagsmálafulltrúa bæjarins, að stytta vinnuloturnar en lengja vinnutímabilið yfir sumarið.


Athugasemdir

Nýjast