Mikil eftirspurn eftir iðnaðarlóðum á Akureyri

Tvær lóðir eru lausar í Nesjahverfi, en þar eru iðnaðarlóðir sem byggst hafa hratt upp að undanförnu. „Það fóru allar lóðir í fyrstu úthlutun, en síðan hefur eitthvað verið um að menn hafi skilað þeim inn," segir Pétur Bolli Jóhannesson, deildarstjóri skipulagsdeildar Akureyrarbæjar, en nú eru lausar lóðir við Goðanes 4 og 7. Nú er unnið að uppbyggingu áfanga sem nefnast C og D sem eru austar á svæðinu, nær Krossanesi. Pétur Bolli segir að skipulag svæðisins verði að líkindum auglýst í næsta mánuði, en um 20 til 25 lóðir, allar frekar stórar, verða í boði á því svæði. „Það er mikill áhugi fyrir iðnaðarlóðum um þessar mundir," segir hann, mun meiri en fyrir lóðum undir einbýlishús, en Pétur Bolli telur að sá markaður sé nokkuð mettaður nú. Handan Hörgárbrautar, við Sjafnargötu, eru líka iðnaðarlóðir, m.a. á Brimborg þar stóra lóð sem fyrirhugað er að byggja á nýjar höfuðstöðvar fyrirtækisins á Akureyri og þá á Europris tvær lóðir á sama svæði, auk þess sem Hagkaup á lóð skammt frá Sjafnarhúsinu sem svo er nefnt.

Nýjast