Mikil ásókn gæðanemenda víðs vegar að úr heiminum

RES Orkuskólinn á Akureyri var settur í dag í annað sinn. Á komandi námsári munu yfir fjörtíu nemendur frá fjórtán löndum hefja meistaranám í vistvænni orkunýtingu við skólann. Um er að ræða eins árs meistaranám í endurnýjanlegum orkufræðum og vistvænni orkunýtingu í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Nemendurnir koma flestir frá erlendum háskólum og hafa þar lagt stund á verkfræði eða raunvísindi, margir á meistara- og doktorsstigi.  

Björn Gunnarsson, skólastjóri RES, setti skólann við hátíðlega athöfn í Ketilhúsinu á Akureyri og auk hans fluttu ávörp þau Össur Skarphéðinsson, iðnaðar- og utanríkisráðherra, Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands, Þorsteinn Gunnarsson rektor Háskólans á Akureyri og Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri. Fyrstu þrír íslensku nemendurnir hefja nú nám við skólann, en auk þeirra stunda nú nám við RES í fyrsta skipti nemendur frá Mið og Suður Ameríku og Asíu. Flestir nemendurnir koma frá Póllandi, 14 talsins og talaði iðnaðarráðherra sérstaklega til þeirra og þakkaði fyrir þann stuðning sem Pólverjar hafa sýnt Íslendingum á erfiðum tímum.

Mikil ásókn hefur verið í skólann og stunduðu þrjátíu nemendur meistaranám við RES á síðasta skólaári. Nú verða nemendurnir rúmlega fjörtíu en um eitt hundrað umsóknir bárust um nám við skólann og komust því mun færri að en vildu. Nemendurnir koma flestir frá erlendum háskólum þar sem þeir hafa lagt stund á verkfræði eða raunvísindi á meistara- og doktorsstigi. Námið er mjög krefjandi og er byggt upp sem eins árs, þriggja anna nám, þar sem öll kennsla fer fram á ensku. Á þessu ári verður boðið upp á nám á fjórum áherslusviðum: jarðhitaorku, efnarafölum og vetni, lífmassaorku og vistvænu eldsneyti, og sviði orkukerfa og orkustjórnunar. Hátt í áttatíu kennarar koma að kennslu við RES á árinu frá innlendum og erlendum samstarfsháskólum og rannsóknarstofnunum. Það er til marks um góða reynslu á fyrsta starfsárinu að allir þeir kennarar sem þá kenndu hafa boðið fram starfskrafta sína við skólann á nýjan leik.

Öflugur nemendahópur

„Nemendurnir sem við erum að fá í skólann er fólk sem hefur náð afbragðs námsárangri við mjög virta háskóla þannig að við getum ekki verið annað en ánægð með gæði nemendahópsins. Gæðin í fyrsta námshópnum voru mikil en þau virðast ef eitthvað er enn meiri á komandi námsári," segir Dr. Björn Gunnarsson, skólastjóri RES.

„Hugmyndafræðin að baki skólanum er að hann verði smár í sniðum en leggi mikla árherslu á að bjóða nám í háum gæðaflokki fyrir úrvalsnemendur. Miðað við reynsluna á fyrsta námsárinu og þann hóp sem nú hefur nám þá sýnist mér þetta markmið okkar ganga eftir. Annað námsárið verður um flest hliðstætt því fyrsta og byggir á þeirri reynslu sem við höfum fengið hingað til. Við fjölgum þó námsbrautum um eina frá fyrra námsári, auk þess sem nemedur verða nú fleiri á brautnum. En almennt séð hefur starfsemin sannað sig sem alþjóðleg menntastofnun," segir Björn.

RES - Orkuskólinn

RES - the School for Renewable Energy Science, er einkarekin mennta- og vísindastofnun sem byggir starfsemi sína á forystu Íslendinga á sviði orkumála. Auk meistaranámsins býður skólinn upp á leiðtoganám og sumarnámskeið með áherslu á endurnýjanlega orkugjafa.

Orkuvörður ehf. eiga og starfrækja skólann. Hluthafar í Orkuvörðum eru Þekkingavörður ehf., RARIK, KEA, Gift fjárfestingarfélag, Landsvirkjun, Norðurorka, Akureyrarbær og Landsbanki Íslands.

Nýjast