„Við hyggjumst byggja þarna þrjú fjölbýlishús sem hvert um sig yrði 7 hæða hátt, en þetta yrðu byggingar eins og við byggðum við Baldurshaga," sagði Sigurður Sigurðsson byggingameistari hjá SS Byggir þegar Vikudagur ræddi við hann um þetta mál. ,,Við munum núna fara í viðræður við Akureyrarbæ um framhaldið og ef hlutirnir ganga fyrir sig eins og ég vonast eftir verður hafist handa við framkvæmdir á svæðinu eins fljótt og mögulegt er."
Sigurður segir að þarna verði um eftirsóknarverðan stað að ræða. „Það er mikill áhugi fyrir þessu svæði meðal almennings. Þarna er stutt í alla þjónustu, stutt í matvöruverslun og Glerártorg og útsýni er þarna skemmtilegt yfir smábátahöfnina og út á fjörðinn."
Ef áform ganga eftir verða þarna um 60 íbúðir í húsunum þremur. Sigurður segir að nyrst í reitnum komi einbýlishúsaröð samkvæmt aðalskipulagi og í miðju svæðisins segist Sigurður gera ráð fyrir leiksvæði eða einhverju slíku, enda sé líklegt að þar séu 10-12 metrar niður á fast.