Mikið um kannabisneyslu og framleiðsla á landa hefur aukist

Lögreglan á Akureyri hefur orðið vör við jafna og þétta vímuefnaneyslu. Mikið er um kannabisneyslu og framleiðsla á landa hefur aukist. Vegna niðurskurðar verður ekki hægt að ráða eins marga til sumarafleysinga og áður. Þegar mikið er um að vera í bænum þýðir það að öryggisstig lækkar. Fleiri leita nú til lögreglunnar með margvísleg vandamál.  

Þetta kom fram á fundi almannaheillanefndar sl. föstudag. Einnig kom fram að mikið álag er á fjölskyldudeild eins og áður og fjárhagsaðstoð heldur áfram að vaxa. Verið er að skoða fjölgun félagsráðgjafa. Áfram er unnið að því að fá til starfa fjármálaráðgjafa og enn er þrýst á Umboðsmann skuldara að opna hér útibú. Hjá Heilsugæslustöðinni er mikið að gera. Starfsmenn sinna svipuðum fjölda viðtala og áður þrátt fyrir niðurskurð.

Ástandið er svipað og áður hjá stéttarfélögunum í Skipagötu. Ásókn í sjúkrasjóði hefur verið mikil en nú er hægt að sækja um styrki vegna þjónustu geðlækna og sálfræðinga. Virknisetur fyrir ungt fólk án atvinnu er enn í undirbúningi í samstarfi Vinnumálastofnunar og samfélags- og mannréttindadeildar og ætti að geta farið af stað í haust. Mjög vaxandi aðsókn er í þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga á Akureyri.

Á FSA stefnir í lágmarksþjónustu í sumar vegna sumarleyfa. Áhyggjur eru af stöðu barna- og unglingageðlækninga og lögð er áhersla á að fá eina stöðu sálfræðings til viðbótar til geðdeildar vegna aukinna og þyngri verkefna. Þeim sem leita til Glerárkirkju vegna mataraðstoðar hefur fjölgað.

Nýjast