Mikið fjör en farið að bera á vöruskorti hjá Skíðaþjónustunni

"Það er bara fjör, það er ekki hægt að segja annað," segir Viðar Garðarsson hjá Skíðaþjónustunni á Akureyri en þar á bæ hafa menn aldrei séð aðra eins sölu í skíðabúnaði og í vetur.  "Ég held við höfum bara aldrei í sögunni haft eins mikið að gera," bætir hann við og þakkar m.a. góðum skíðavetri  norðan heiða allt frá því  í nóvember og miklum fjölda ferðamanna í bænum undanfarna mánuði.  

Viðar segir að höfuðborgarbúar hafi flykkst norður í land á skíði í vetur og tekur undir með forstöðumanni Skíðastaða sem líkir aðsókninni í Hlíðarfjall við það að hér séu páskar aðra hverja helgi.  Í nýliðnum febrúar varð til að mynda 100% aukning í sölu hjá Skíðaþjónustunni miðað við febrúar í fyrra, en þó hafði orðið dágóð aukning milli áranna 2007 og 2008 í þeim mánuði.

Viðar segir að farið væri að bera á vöruskorti í versluninni, en vegna bankahrunsins í október hafi þeir ekki fengið allt sem þeir hafi pantað.  Allur brettabúnaður er keyptur frá Kína og var fyrirtækið búið að greiða inn á sendingarkostnað fyrir hrun og því skilaði sér allt sem pantað var þaðan.  Viðar segir að þá hafi sambærilegar verslanir syðra haldið að sér höndum í innkaupum fyrir veturinn og því hafi höfuðborgarbúar í meira mæli keypt vörur hjá sér. 

"Búðin er bara orðin hálf tóm og það gengur jafnt og þétt á notaðan búnað.  Fólk verður að láta sér hann lynda núna, þegar ekki er til nýtt.  Enda held ég að sé í góðu lagi að nýta hlutina betur og fólk er að læra það," segir hann.  Skíðaferðalangar sem ætla sér að dvelja nokkra daga við skíðaiðkun hafa líka að sögn Viðars keypt notaðan búnað í meira mæli en áður, því það sé ódýrara en að leigja skíði í marga daga.

Nýjast