Mikið annríki hjá Slippnum

Verkefnastaða Slippsins Akureyri hefur verið mjög góð að undanförnu. „Það er vitlaust að gera hjá okkur, alls kyns verkefni í gangi og mikil og góð verkefnastaða framundan," segir Anton Benjamínsson framkvæmdastjóri en þar er nú hafin árviss „vertíð" við viðgerðir og breytingar á skipum. Anton segir að á vorin og sumrin sé ávallt mest að gera í skipaviðgerðunum og viðhaldi skipa og því megi segja að vertíðin standi yfir. „Það er mjög vel bókað framundan hjá okkur en þar sem eitthvað er um að menn séu að breyta tímasetningum þá höfum við einstaka „holu" sem við getum sett ný verkefni í." Um 80 manns starfa hjá Slippnum og alltaf talsvert af undirverktökum. „Við höfum aðeins verið að bæta við okkur mannskap en því er ekki að leyna að það vantar endurnýjun í stéttina hjá málmiðnaðarmönnum. Við höfum verið að taka eins marga nema og við höfum getað með góðu móti því það verður að vera endurnýjun í stéttinni," sagði Anton.

Nýjast