Miðill spáir samstarfslitum í bæjarstjórn í vor

Skúli Lorenzon, miðill á Akureyri með meiru telur sig sjá að meirihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar muni springa þegar kemur fram á vorið.  Skúli sem er forspár maður og sagði m.a. fyrir um það fyrir rúmu ári síðan, að foringjar í Framsóknarflokknum myndu hætta á nýliðnu ári, lét þessi orð falla í umræðuþætti á RÚVAK fyrr í dag þar sem hann var að ræða um álfa og álfatrú.

Í meirihlutasamstarfi á Akureyri eru nú Samfylking og Sjálfstæðisflokkur og voru það þáverandi oddvitar flokkanna sem höfðu forustu um samstarfið, þeir Kristján Þór Júlíusson og Hermann Jón Tómasson. Kristján mun hins vegar láta af bæjarstjórasæti sínu fyrir sjálfstæðismenn í bæjarstjórninni er hann fer í þingframboð og tekur Sigrún Jakobsdóttir við á bæjarstjórnarfundi í næstu viku. Hermann Jón á hins vegar að sitja í bæjarstjórastólnum síðasta ár kjörtímabilsins - fari svo að spádómur Skúla um samstarfsslit rætist ekki.

Nýjast