Miðbærinn - þríein ábending

Ég vil ekki vera leiðinlegur – sumir segja reyndar að það liggi í eðli mínu sem er haugalýgi – og ég veit að þetta sem hér fer á eftir hefur allt verið sagt áður. En samt, ég hef á tilfinningunni að nú sé stund upprifjunar runnin upp. Ég tek því sénsinn. Fyrirgefið staglið en ég hef áhyggjur af miðbænum okkar.

Ekki bara síkið

Það er mikilvægt fyrir þá sem nú glíma við miðbæjarskipulag Akureyrar að hafa hugfast að mikill fjöldi bæjarbúar hnaut ekki aðeins um síkið. Það varð hins vegar að tákni baráttunnar gegn verðlaunahugmyndinni.

Þar sem við á sínum tíma stóðum á götuhornum og söfnuðum undirskriftum gegn umbyltingu miðbæjarins okkar fékk ég á tilfinninguna að það væru að minnsta kosti tveir drættir aðrir í skipulaginu, fyrir utan síkið, er vektu ugg fólks, og það jafnvel á við síkjadrauminn sjálfan.

Annað voru hin mörgu hús sem átti að byggja á svæðinu. Lausnarorðið var þétting byggðar sem varð – furðulegt nokk – stöðugt þéttari eftir því sem meira var unnið með hugmyndina. Alls 300 íbúðir og nýjar verslanir. Og hvernig átti að koma þessu öllu fyrir? Helst átti að rífa Braunshús (Hafnarstræti 106) og byggja fjórar hæðir á lóðinni með örmjóu sundi í gegn. Í „gatinu“, þar sem við kaupum indverskan dásemdarmat í Turninum (Hafnarstræti 100b), átti að byggja aðrar fjórar hæðir – og örmjó göng í gegn.

Að austanverðu við þessar tengingar miðbæjar við bryggju og haf – sem sagt sundið og göngin – skyldi svo haldið áfram að byggja. Við efri hluta síkisins, vestan Skipagötu – á vatnasvæðinu svokallaða – átti að hlaða niður byggingum eins og rýmið leyfði. Fjögurra hæða bygging að sunnanverðu, ein hæð við Apótekið, og að norðanverðu ein og fjórar hæðir.

Svo mikill var byggingarákafinn að austan Glerárgötu, sunnan Hofs, – já við leifar hinnar gömlu Torfunefsbryggju – var einnig áformað að byggja.

Þetta féll fólki ekki.

Hvar er sólskinið?

Annað sem ég heyrði fólk setja fyrir sig, þar sem ég norpaði við Ríkið, var hæð og umfang hinna fyrirhuguðu bygginga. Þær gleypa í sig bílastæðin, var talað, og ekki úr lausu lofti gripið. Þriggja til fimm hæða hús voru teiknuð suður með Glerárgötu og Drottningarbraut, inn að gömlu Bögglageymslunni við Hafnarstræti.

Var einhver að tala um sólríkan miðbæ, spurðu Akureyringar, vita þessir menn ekkert um sólarhæð og breiddargráður? Tala um að gera miðbæinn opnari og sólríkari en fylla hann svo af steypu. Og hvað varð af tengingu miðbæjar og sjávar? Átti síkið eitt að sjá um þann galdur?

Hin rétta stefna 

Svona heyrði ég talað. Og þótt síkið sé ekki lengur á dagskrá erum við enn á sömu braut. Þétting byggðar er ennþá töfraorð; byggjum mikið og byggjum hátt. Við viljum okkar Manhattan.

Þetta er röng stefna.

Hugsum okkur um. Sjallareiturinn er illa skipulagður og að hluta í hreinni órækt. Einbeitum okkur að honum.

Oddeyrin, neðan Hjalteyrargötu, er sömuleiðis illa skipulögð og afar illa nýtt. Skoðum hana með 100-ára-þróunargleraugum. Þarna á vitaskuld að rísa íbúðarhverfi – já, fleiri en eitt, nóg er plássið – sem mun líkast til skjóta styrkari stoðum undir miðbæinn okkar en 300 íbúðir í honum miðjum.

Hvað varðar tengingu miðbæjar við Pollinn þá er hreinlega út í hött að henni verði komið á með því að byggja húsveggi meðfram Glerárgötu þar sem hún teygir sig á milli Hofs og Kaupvangsstrætis – og á parti beggja vegna hennar. Tengingin verður með því að efla aðstöðu þeirra sem sækja í Pollinn; Nökkvamanna – sem stendur til og er ákaflega hrósvert – auðveldum hraðbátamönnum að koma bátum sínum á sjó, umbreytum höfninni við Torfunef og gerum hana að draumastað skútumanna. Á sólríkum dögum leikur ungviðið sér og stekkur fram af Torfunefsbryggju, sumir fara með stöng, gerum þeim leikinn auðveldari. Mætti gera eitthvað fyrir sjósundmenn?

Um leið og við aukum með þessum hætti umsvif sjávarmanna munum við hin gera okkur tíðförult niður á bryggju að fylgjast með. Ég tala nú ekki um ef við framlengjum göngustíginn meðfram Drottningarbraut og út á Torfunef.

Niðurstaða – látum bílastæðin vera 

Bílastæði miðbæjarins, utan frá BSO og inn undir Samkomuhús, á að láta óáreitt. Þetta eru skipulögð svæði sem þjóna tilgangi. Bílastæðahús væru að vísu betri lausn, skal ég viðurkenna, en á meðan ekki hillir undir neitt slíkt skulum við einbeita okkur að Sjallareitnum og Oddeyri. Eflum þá sem vilja leika sér á Pollinum og – bingó – tengingin við miðbæinn fylgir með sem bónus. Sól og skjól í miðbæinn – á góðviðrisdögum – fáum við til dæmis með því að fjarlægja Braunshús og breyta sundinu á bakvið í opinn fólksvang (fyrirgefðu Helga Haraldsdóttir, þetta er bara hugmynd – hvað segirðu um kaffiborð og kannski suðrænan blómaskála á þessum yndisstað æsku þinnar?) Páll Björnsson, prófessor við HA, hefur bent á þann möguleika að fullgera Landsbankahúsið? Er það mögulegt?

Staðreyndin er sú að Akureyringar vilja ekki fleiri skuggagefandi byggingar í hjarta bæjarins – kalda veggi er varpa löngum skuggum á sólríkum dögum. Þetta þurfa þeir skipulagsfræðingar að hafa í huga sem nú glíma við miðbæ Akureyrar.

Jón Hjaltason.

Höfundur er sagnfræðingur

 

Nýjast