Rúmlega 1.100 nýnemar verða við nám í Háskólanum á Akureyri í vetur og hafa nýnemar aldrei verið fleiri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HA. Í fyrsta skipti er kennt á öllum námsstigum háskóla, þ.e. á bakklár-, meistara- og doktorsnámsstigi. Alls mun 2.384 nemendur stunda nám við HA haustmisserið 2018–2019.
Metfjöldi var í umsóknum um skólavist í HA eða rúmlega 2000 umsóknir og þurfti að vísa töluverðum fjölda frá.
„Ljóst var að við myndum aldrei geta tekið á móti öllum þessum fjölda og á sama tíma viðhaldið gæðum námsins hjá okkur. Því fór það svo að yfir 500 nemendur sem sóttu um nám var hafnað. Annars vegar vegna þess að þeir uppfylltu ekki inntökuskilyrði og hins vegar skiluðu ekki fullnægjandi gögnum. Við höfum aldrei fyrr þurft að hafna svo mörgum eða einum af hverjum fjórum,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Flestir hefja nýtt nám við félagsvísindadeild eða 405 manns. 135 munu stunda nám í sálfræði og 188 nám í þremur námsleiðum lögreglufræði. Þar er í boði BA-nám í lögreglu- og löggæslufræði og diplómanám fyrir verðandi og starfandi lögreglumenn. Ásókn í kennslufræðinám við HA hefur aukist mikið milli ára og í haust munu samtals 184 stunda nám við kennaradeildina, þar af hefja 99 manns nám til kennsluréttinda.