11.desember - 18.desember - Tbl 50
„Mér fannst þetta rosalega fróðlegt og skemmtilegt og mig langar bara að fara á fleiri svona viðburði“
Krubbur-hugmyndahraðhlaup (hakkaþon) var haldið á STÉTTINNI á Húsavík 8.-9. mars sl. Hraðið-miðstöð nýsköpunar stóð fyrir viðburðinum í samvinnu við KLAK-icelandic startups, m.a. með styrk úr Lóu-nýsköpunarsjóði. Um er að ræða samstarfsverkefni með fyrirtækjum á svæðinu og stoðkerfi atvinnulífsins, s.s. SSNE, Eim, Norðanátt o.fl. Einn af vinningshöfum keppninnar segir viðburðinn hafa komið sér þægilega á óvart og hlakkar til að endurtaka leikinn að ári.
Um 70 gestir sóttu viðburðinn og voru þátttakendur 30 í sjö teymum. Unnið var með nýsköpunartækifæri út frá nýtingu hráefnis sem fellur til sem aukaafurð hjá fyrirtækjum á nærsvæðinu.
Hraðið-miðstöð nýsköpunar mun standa fyrir Krubb-hugmyndahraðhlaupi árlega og er þegar farið að huga að viðburði næsta árs.
Aðalverðlaun Krubbs féllu í skaut Júlíu Margrétar Birgisdóttur og Sólveigar Óskar Guðmundsdóttur.
Klæðnaður er ekki bara klæðnaður
Þær kynntu hugmynd sína um framleiðslu á skynörvunarfatnaði fyrir börn með hegðunarvanda. Afar takmarkað framboð er í dag á vörum sem fullnægja skynþörfum einstaklinga með greiningar eins og einhverfu, ADHD og kvíða í dag. Hugmynd þeirra snýst um að hanna peysu úr endurunnu efni sem býr yfir sérstakri hljóðeinangrun og skyggni í hettu. Einnig nag-hálsmáli, fidgets í vösum, þrengingum á ermum og efni sem hentar börnum með skynörvunarvanda.
Meðlimir teymisins búa yfir áralangri starfsreynslu á leikskóla auk þess að eiga báðar börn með einhverfu og ADHD.
Júlía Margrét segir í spjalli við Vikublaðið að það hafi verið mögnuð reynsla að taka þátt í þessum viðburði þar sem hugmyndaflugið hafi fengið að njóta sín.
Endurnýta textíl og málma frá Gámafélaginu
,,Planið sem við settum upp þarna kom út frá þessum áskorunum sem var að við myndum endurvinna textíl frá Gámafélaginu sem Aldey og þær væru búnar að hreinsa,“ segir Júlí og vísar þar til verkefnisins „Nekt“ sem vann áskorun Íslenska gámfélagsins. Meðlimir þess eru Aldey Unnar Traustadóttir, Þóra Katrín Þórsdóttir, Björg Sigurðardóttir, Helga Dagný Einarsdóttir og Arna Þórarinsdóttir. Verkefni þeirra snérist um endurvinnslu á textílúrgangi. Með því að tæta textílúrgang í sérstökum vélum verður búinn til trefjahnoðri og úr honum spunninn þráður til fataframleiðslu. Framtíðarsýn þeirra er að vefa efnið sjálfar en í upphafi verður megináherslan á hreinsun og þráðagerð. Sérstaða verkefnisins er að nýta orku á svæðinu til hreinsunar og þurrkunar á textílnum.
Þjónar margþættum tilgangi
„Við myndum sem sagt nýta það til að búa til peysu, það er hugmyndin sem við vorum að vinna með á Krubbnum,“ segir Júlía Margrét ennfremur.
Hún lýsir flíkinni sem skynörvunarpeysu sem þjónar margþættum tilgangi hjá börnum sem erum með skynúrvinnsluvanda. „Það er hægt að fikta í ermunum og það eru seglar á vösum og hljóðeinangrun í hettunni en einnig skyggni sem hægt er að draga fram úr henni svo barnið geti dregið sig í einskonar einveru hafi það þörf fyrir það,“ segir Júlía og bætir við að það sé áskorun alla daga að klæða krakka með skynörvunarvanda. „Við erum að reyna að búa til fatnað sem hentar þessum einstaklingum.“
„Við erum líka með bolta í ermunum sem hægt er að fikta í og ákveðna áferð í hálsmáli sem hægt er að bíta í. Það er svona planið varðandi þessa peysu – það sem við vorum að vinna með,“ segir Júlía og er afar ánægð með árangurinn af viðburðinum.
Hugmyndin sem Júlía Margrét og Sólveig unnu með á Krubbnum segir Júlía að hún hafi gengið lengi með í maganum. Þær starfa báðar á Leikskólanum Grænuvöllum en Sonja Finnsdóttir iðjuþjálfi á sama leiksskóla hefur gengið til liðs við þær til að þróa hugmyndina áfram.
Frábær viðburður
„Þetta er eitthvað sem við höfum lengi verið að hugsa um. Við erum að vinna með þetta, við sjáum þetta alla daga og okkur hefur alltaf langað til að gera eitthvað fyrir þessa einstaklinga til að gera hversdaginn þægilegri,“ útskýrir Júlía Margrét og bætir við að tilviljanir hafi ráðið því að þær tóku þátt í Krubbnum að þessu sinni.
„Upprunalega hugmyndin var reyndar allt önnur og við ætluðum ekki einu sinni að taka þátt en svo kom þetta upp í samtali og við slógum til. Þetta var geggjað. Ég bjóst eiginlega við að þetta yrði allt öðruvísi og var ekki að fatta að það yrðu svona áskoranir sem við þyrftum að vinna útfrá,“ segir Júlía og bætir við að helsti kosturinn við að taka þátt í svona viðburði sé sá að þá komi fram athugasemdir úr ólíkum áttum sem hægt er að vinna nánar með.
„Mér fannst þetta rosalega fróðlegt og skemmtilegt og mig langar bara að fara á fleiri svona viðburði. Maður fær svo mikið að „brainstorma“ og fær athugasemdir frá öðrum, hluti sem maður hafði ekki hugsað út í. Það voru áskoranir frá Íslenska Gámafélaginu um að nýta úrgang úr öllum flokkum. Við tókumst á við þá áskorun að nýta málma til að búa til segul í peysuna. Við vildum hafa segul en ekki rennilás,“ segir Júlía Margrét að lokum.