Á efnisskrá Föstudagstónleikanna er Íslenskur dans eftir Hallgrím Helgason, kaflar úr Átján hugleiðingum um íslensk þjóðlög eftir Ríkharð Örn Pálsson, Íslensk rapsódía eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson og fjórar þjóðlagaútsetningar eftir Karólínu Eiríksdóttur. Tónleikarnir hefjast kl. 12.15 með dýrindis súpu.
Um helgina er síðasta tækifæri til að sjá sýningu Margrétar Jónsdóttur leirlistakonu í Listasafninu á Akureyri - sýningin ber yfirskriftina Hvítir skuggar. Í Gallerí BOX í Listagilinu er einnig síðasta sýningarhelgi á sýningunni "Kappar og ofurhetjur". Þetta er fyrsta sýningin sem Myndlistarfélagið <http://mynd.blog.is/> skipuleggur í GalleríBOXi sem nú er í umsjá félagsins eftir nokkrar endurbætur og stækkun. Myndlistarfélagið var stofnað á Akureyri í janúar 2008 og eru félagar um 80, félagið er aðili að Sambandi íslenskra myndlistarmanna. <http://www.sim.is/>
Á laugardaginn klukkan 15 opnar Inga Björk Harðardóttir sýninguna "Réttir" á Café Karólínu. Þetta er þriðja einkasýning Ingu Bjarkar en hún hefur tekið þátt í átta samsýningum. Hún útskrifaðist árið 2008 frá Myndlistaskólanum á Akureyri en áður hafði hún útskrifast sem Gullsmiður og starfað um árabil. Sýningin stendur til 3. apríl.
Síðasta sýning Leikfélags Akureyri á verkinu "Falið fylgi" eftir Bjarna Jónsson er á laugardaginn en auk þess sýnir Leikfélagið verkið "Fúlar á móti" þar sem þær stöllur Helga Braga, Edda Björgvins og Björk Jakobsdóttir fara á kostum.
Síðast en ekki síst er komið að tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á sunnudaginn. Þar sem frumflutt verður kontrabassakonsert eftir Óliver Kentish, svíta um Góða dátann Svejk eftir R. Kurka og lítil Sinfónía eftir C. Gounod. Einleikari á tónleikunum er Þórir Jóhannsson og stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson. Tónleikarnir fara fram í Samkomuhúsinu á Akureyri og hefjast klukkan 16 á sunnudaginn.