Menningarveisla á Akureyri um helgina

Það verður mikil menningarveisla í Listagilinu á Akureyri á morgun laugardag þegar opnaður verður fjöldi sýninga. Í Listasafninu á Akureyri opnar klukkan 15 sýningin Straumur/burðarás. Myndlistarmennirnir sem verk eiga á henni eru Ingólfur Arnarsson, Ívar Brynjólfsson, Ívar Valgarðsson, Jón Laxdal Halldórsson og Kristján Guðmundsson.  

Sýningin, sem skartar í flestum tilvikum nýjum verkum eftir listamennina, fjallar öðrum þræði um naumhyggjuna og arfleið hennar á Íslandi í konseptlist og ljósmyndun og er hún hluti af Listahátíð í Reykjavík. Sýningarstjórar eru Hannes Sigurðsson og Birta Guðjónsdóttir, en í tengslum við sýninguna gefur safnið út lítið kver með sögulegri úttekt á naumhyggjunni eftir Hönnu Guðlaugu Guðmundsdóttur listfræðing.  Nánar er fjallað um sýninguna á slóðinni http://www.listasafn.akureyri.is/syningar/2010/straumur/t_blank þar sem einnig má nálgast bókina.
Í Populus Tremula klukkan 14 opnar Maja Siska myndlistarsýningu sem hún nefnir RT10 og stendur sýningin aðeins þessa einu helgi.  Nánari upplýsingar um listakonuna er að finna á slóðinni  http://www.skinnhufa.is/

Þrítugasta og sjötta starfsári Myndlistaskólans á Akureyri lýkur með veglegri sýningu á verkum nemenda í húsnæði skólans. Sýnd verða verk nemenda fornámsdeildar, listhönnunar- og fagurlistadeildar. Þar gefur að líta sýnishorn af því helsta sem nemendur hafa verið að fást við í myndlist og hönnun á þessu skólaári. Einnig verða sýnd verk eftir nemendur sem voru á barnanámskeiðum á vorönn.  Opnunartími sýningarinnar er 14 til 18  fram á sunnudag.

Í BOXinu sem er litli sýningarsalur Myndlistarfélagsins opnar Helene Renard klukkan 14 sýninguna UMSLAG.  Sýningin er opin um helgar og Hvítasunnuhelgina frá kl.14-17.  Í upplýsingum um sýninguna segir:  Ferðin er hafin! Fyrsta boxið er komið til Jamaíka, New York. Box tvö lagði af stað í dag. Öðru efni sýningarinnar verður snotursamlega pakkað og ferðast með listamanninum, Helene Renard, með Icelandair, þriðjudaginn 11. maí.
Verkið snýst um hugtökin að brjóta saman/taka sundur og pakka niður/taka upp úr. Innstillingunni sem var sérstaklega gerð fyrir þetta rými, er ætlað að ýta undir þátttöku áhorfenda..  Nánari upplýsingar um listakonuna er að finna á slóðinni  http://www.sabinedesignstudio.com/artwork.html/t_blank
 
Í stóra sýningarsal Myndlistarfélagsins opnar sýningin Innlyksa.  Þar hefur listakonan, Hlíf Ásgrímsdóttir sett inn í sýningarýmið myndir af rúlluplast sem allstaðar er hægt að finna í náttúrunni. Þá eru nokkrar vatnslitaðar ljósmyndir sem hún tók í Brekkunni á Akureyri þar sem greina má plast í þúfum og grasi.  Í stóru vatnslitaverkunum lætur Hlíf plast verða innlyksa í ímynduðu rými. Innlyksa er skírskotun í að stöðvast eða teppast einhvers staðar.

Í Jónas Viðar Gallery opnar listakonan og bæjarlistamaður Akureyrar 2009-2010 Guðný Kristmannsdóttir málverkasýninguna GULUR.  Sýningin stendur til 19. júní og er opin á laugardögum 13-18 eða eftir samkomulagi.  Nánari upplýsingar um listakonuna má finna á heimasíðunni http://www.gudny.is/t_blank

Í Verksmiðjunni á Hjalteyri verður klukkan 17 frumfluttur dansgjörningurinn "Sláturhús hjartans".  Höfundar verksins eru Anna Richards dansgjörningalistakona og bæjarlistakona á Akureyri  2008-2009 og Sigurbjörg Eiðsdóttir myndlistakona.  Flytjandi verksins er Anna Richards en í verkinu koma fram, auk Önnu, Hallgrímur J. Ingvason tónlistamaður, Helga Rós Indriðadóttir sópransöngkona, Sigurður Hólm Sæmundsson björgunarsveitamaður og Karlakór Dalvíkur undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Sviðsstýra og ljósmóðir verksins er Lene Zachariassen.
Í verkinu er fjallað um ferðalag mannveru innan völundarhúss hjarta síns og þau átök  sem þar eiga sér stað og leiða hana í gegnum ferli ástríðna, uppgjafar, ótta, skilnings og umbreytinga.  Umgjörð verksins er unnin inn í rými gömlu síldarbræðslunnar á Hjalteyri og er áhorfendum frjálst að færa sig til í rýminu á meðan á flutningi verksins stendur því einnig er hægt að fylgjast með verkinu af annarri hæð hússins. Tónlist í verkinu er að hluta frumsamin og flutt sem spunaverk þar sem dansari og tónlistarmenn spinna saman. Rúta fer frá Listasafninu á Akureyri kl. 16:30 og er enginn aðgangseyrir.  Verkið hlaut styrk frá Leiklistarráði Íslands og Menntamálaráðuneyti 2010 og frá Menningarráði Eyþings.  http://www.verksmidjan.blogspot.com/t_blank    


Á Bláu könnunni opnar klukkan 14 ljósmyndasýning Finns Inga Erlendssonar og ber hún heitið "Týnda borgin".  Sýningin er afrakstur dvalar Finns í sígaunavögnum í Berlín þar sem fólk lifir utan samfélagsins.  Sýningin Týnda borgin er hluti af dagskrá listahátíðarinnar List án landamæra.

Nýjast