Menningarfélagið Hof auglýsir eftir fólki til starfa í Hofi

Menningarfélagið Hof hefur auglýst eftir fólki til starfa í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri, sem verður formlega opnað 27. ágúst nk.  Um er að ræða fjórar stöður, alls 3,5 stöðugildi og er umsóknarfrestur til 23. apríl nk. Auglýst er eftir umsjónarmanni fasteigna, tæknistjóra, starfsmanni í móttöku og miðasölu og markaðsfulltrúa í 50% starf.  

Umsjónarmaður fasteigna annast m.a. alla almenna umsýslu og daglegan rekstur á húsinu og hefur yfirumsjón með hússtjórnarkerfi, framkvæmdum og viðhaldi. Tæknistjóri heldur m.a. utan um alla tæknivinnu í Hofi, ber ábyrgð á öllum  búnaði sem tilheyrir húsinu, viðhaldi hans og mögulegum inn- og útlánum. Starfsmaður í móttöku og miðasölu sinnir m.a. upplýsingamiðlun til gesta hússins, annast símsvörun og hefur yfirumsjón með miðasölu í húsinu, uppgjörun og aðstoð við markaðssetningu. Markaðsfulltrúi hefur m.a. umsjón með heimasíðu félagsins og vinnur að markaðssetningu  hússins gagnvart  mögulegum notendum og gestum, vinnur kynningarefni, auglýsingar, birtingaáætlanir og fleira.

Í Menningarhúsinu Hofi verður aðsetur Tónlistarskólans á Akureyri, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Akureyrarstofu og Upplýsingamiðstöðvar ferðamála. Leikfélag Akureyrar verður stór notandi í húsinu en þar verður jafnramt rekin verslun, kaffihús og veitingaþjónusta.

Nýjast