Það er talsvert um liðið síðan ég skrifaði nokkrar greinar um bíla og umferðarmál í Dag heitinn. Þegar nú gefst tækifæri, með þessari nýju netútgáfu, til að láta ljós sitt skína, er sjálfsagt að nota það.
Fyrir nokkru las ég grein eftir félaga minn í bílaáhuganum, Sigurð Hreiðar, þar sem hann gerði að umtalsefni ástandið í umferðinni. Hann lagði á það áherslu, að burtséð frá öllum ákvæðum umferðarlaga um hámarkshraða og aðra hegðan, þá ber hver ökumaður fyrst og síðast sjálfur ábyrgð á ferð sinni. Hver einasti ökumaður hefur þá skyldu að haga akstri þannig að hann sjálfur og aðrir komist heilir á leiðarenda. Flóknara er það nú ekki. Margir ökumenn virðast ekki gera sér grein fyrir þessum skyldum sínum og haga akstri sínum þannig að stórhætta verður af. Oftast sleppa menn þó frá slíkum glæfrum, en því miður ekki alltaf.
Auðvitað sjóast maður í þessu ástandi á þjóðvegum landsins en einhvernveginn finnst mér samt að ástandið fari þó heldur versnandi. Vetrarferðir á vegum með lausum snjó eru t.d. ekki sérlega þægilegar þegar mæta þarf tugum flutningabíla, sem draga á eftir sér snjókóf sem byrgir oft útsýn marga tugi metra aftan við flutningabílinn. Þar getur ýmislegt verið fyrir sem ekki sést. Og þá er bara eitt að gera, hægja verulega á eða stoppa þar til útsýnið verður aftur nægjanlegt. Það þykir hins vegar ekki stórmannlegt í íslenskri umferðarmenningu að draga úr hraða (að maður tali nú ekki um að stoppa) ef aðstæður til aksturs versna skyndilega. Slík varúð getur því sem best skapað aðra hættu. Aftanáakstur.
Vanmat á aðstæðum getur verið undarlega áberandi. Ég átti fyrir allmörgum árum leið um Hvalfjörð í MJÖG dimmri þoku. Af því að ég er óttalega huglaus þá dró ég verulega úr hraða, talsvert niður fyrir hinn leyfilega hámarkshraða, enda skyggnið afar slæmt. Ég varð hins vegar umsvifalaust að farartálma fyrir samferðafólk mitt í Hvalfirðinum, sem ók hikstalaust framúr mér við þessar aðstæður. Annað hvort var þetta fólk allt saman skyggnt eða haldið áhættufíkn. Framúrakstur við þessar aðstæður var algerlega óverjandi.
En slíkt vanmat er víst ekki séríslenskt fyrirbrigði. Þýsk athugun leiddi í leiddi í ljós að ökumenn flutningabíla á þýskum hraðbrautum óku oft það hratt í lélegu skyggni að þeir höfðu aðeins yfirsýn yfir þriðjung þeirrar vegalengdar sem þurfti til að stöðva flykkin sem þeir óku. Tveir þriðju stöðvunarvegalengdarinnar voru þeim huldir í þokunni. Frábært.
Þetta er nú bara svona smáhugvekja um ábyrgð okkar allra undir stýri. Munum að það er í okkar höndum, hvers og eins, hvort "umferðarmenningin" verður menning eða ómenning.
ÚH.