Meintur barnaníðingur áfram í gæsluvarðhaldi

Fangelsið á Akureyri. Mynd/Þröstur Ernir
Fangelsið á Akureyri. Mynd/Þröstur Ernir

Gæsluvarðhald yfir manninum sem handtekinn var á Akureyri um miðjan mánuðinn vegna gruns um kynferðisbrot gegn tveimur átta ára drengjum hefur verið framlengt um þrjár vikur. Að sögn lögreglunnar á Akureyri er málið í eðlilegum farvegi og rannsókn miðar vel. Sá grunaði er rúmlega þrítugur en brotið átti sér stað á Brekkunni á Akureyri og eru ákærði og drengirnir búsettir í bænum.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að móðir tveggja drengja hafi haft samband við lögreglu. Sagði hún frá því að nágranni hennar hafi hitt syni hennar á bílastæði við heimili þeirra og fóru drengirnir í fylgd karlmannsins í íbúð hans. Þar á maðurinn að hafa rassskellt drengina og brotið gegn þeim kynferðislega.

Drengirnir gátu báðir nafngreint manninn og var hann handtekinn síðar sama kvöld og móðirin hafði haft samband við lögreglu. Sakborningurinn neitar sök. Að sögn lögreglu er maðurinn ekki grunaður um fleiri brot á þessu stigi málsins. Lögreglan vill ekki segja til um hversu gróf brotin voru gegn drengjunum.

throstur@vikudagur.is

 

Nýjast