Með starfsemi Hofs er verið að skapa vettvang fyrir enn öflugra menningarlíf

Stjórn Menningarfélagsins Hofs hefur unnið að drögum að stefnumótun félagsins sem notuð verða sem grunnur að frekari vinnu þegar reksturinn verður kominn með fast land undir fótum. Þeim sem að undirbúningi starfseminnar hafa komið eru sammála um að með starfsemi hússins sé verið að skapa vettvang fyrir enn öflugra menningarlíf á Akureyri, á Norðurlandi sem og á öllu landinu.  

Þetta kemur fram í skýrslu stjórnar frá aðalfundi félagsins sem haldinn var nýlega. "Starfsemin á að geta gefið okkur tækifæri til að vera leiðandi í á því sviði sem og að vera forgöngumenn á vettvangi sýningar- og ráðstefnuhalds. Þar er starfssvið Hofs bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Við megum ekki sætta okkur við annað en framúrskarandi árangur í starfi Hofs. Við sjáum fyrir okkur að metnaður og gæði verði okkar orðspor og hagsmunaaðilum úr menningar og listageiranum þyki eftirsóknarvert að koma til okkar. Til þess þarf vandaðan undirbúning og  markaðssetningu og orð Þorsteins Gylfasonar heitins verða að vera okkar leiðarljós en hann sagði: menning er að vanda sig," segir r í skýrslu stjórnar.

Þar kemur einnig fram að Hof verður fyrir almenning en rekstur hússins þurfi engu að síður að hvíla jafnt á rekstrarlegum forsendum sem og þeim listrænu og menningarlegu. "Rekstrarformið á að skapa Menningarfélaginu sjálfstæði í ákvörðunum um rekstur líkt og raunin er með Leikfélag Akureyrar eða Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Það er menningar- og listastarfsemi mikilvægt að getað staðið undir eigin rekstri í samfloti og samvinnu við opinbera aðila. Gera þarf skýlausar kröfur til sömu stofnana um ábyrgan rekstur en með því að standa vel að málum og halda rekstri innan heimilda og jafnframt að uppfylla þjónustumarkmið sem hið opinbera setur þeirri starfsemi þá skapast traust á milli menningarstarfs og samfélagsins sem við þurfum sannarlega á að halda í Hofi þar sem deildar meiningar eru og hafa verið um framkvæmdina frá upphafi. Eina leiðin til að skapa það traust er með vönduðum vinnubrögðum. Menning er að vanda sig," segir í skýrslunni.

Stjórn Menningarfélagsins Hofs fundaði alls níu sinnum á 12 mánuðum og fram kemur í skýrslunni stjórnin hafi verið einhuga um að lækka þóknun einhliða fyrir setu í stjórn félagsins sem ákveðin var á á stofnfundi. Þóknunin var færð til samræmis við sambærileg nefndarstörf innan Akureyrarbæjar og er orðin þriðjungur af upphaflegri þóknun. "Hafist var handa við stefnumótun félagsins strax í nóvember 2008 og stjórnarmenn kynntu sér þann undirbúning sem hafði átt sér stað hjá verkefnastjórn hússins. Jafnframt var komið á formlegum tengslum við hagsmunaaðila hér í bænum í því augnamiði að mynda samráðsvettvang fyrir ýmsar stefnumótandi ákvarðanir varðandi framkvæmdir sem og væntanlegan rekstur. Á þeim tíma var enn ráðgert að opna húsið í ársbyrjun 2010 en líkt og flestir vita þá hefur opnunin verið ákveðin í ágúst 2010 á Akureyrarvöku. Allar framkvæmdir miðast við þá dagsetningu og framámenn Akureyrarbæjar hafa talað af eindrægni um að verkinu verði lokið þá og er það vel," segir ennfremur í skýrslu stjórnar.

Stjórn félagsins er óbreytt en hana skipa Karl Frímannsson formaður, Freyja Dögg Frímannsdóttir ritari og Magnús Ásgeirsson meðstjórnandi.

Nýjast